Launagreiðslur forstjóranna

Launkjör forstjóra stórra fyrirtækja á Íslandi breyttust með misjöfnum hætti á milli ára. Flestir hækkuðu í launum og sumir um meira en 10%, en nokkrir horfðu upp á kjörin versna. 

Greint var frá launahækkun Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á mbl.is í gær. Í tilkynningu frá Landsvirkjun er hækkunin sögð vera 32% á milli ára og að hana megi rekja til launalækkunar sem forstjóri tók á sig á árinu 2012, sem leiddi til þess að laun forstjóra voru orðin lægri en laun framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu.

Blaðamaður mbl.is tók saman upplýsingar úr ársreikningum helstu fyrirtækjanna sem er gert að skila ársreikningi til Kauphallarinnar. Þau fyrirtæki sem skiptu um forstjóra á árunum 2016 og 2017 voru hins vegar ekki tekin með í reikninginn. 

Meðalhækkunin sem samantektin nær til nemur 4,2%. Tveir forstjórar lækkuðu í launum, þar af einn um 16%. Þrír forstjórar hækkuðu um meira en 10% í launum, þar af einn um tæplega 21%. 

Graf/mbl.is

Árslaun Helga S. Gunnarssonar, forstjóra Regins, lækkuðu á milli ára um 16% eða úr 39,6 milljónum króna í 33,2 milljónir. Laun Garðars Hannesar Friðjónssonar, forstjóra Eikar, hækkuðu hins vegar um 5,8% upp í 36 milljónir. Af fasteignafélögunum hækkuðu laun Guðjóns Auðunssonar, forstjóra Reita, mest. Eftir 12,1% hækkun voru laun Guðjóns komin í 44,4 milljónir á ári. 

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, hækkaði um 6,2% í launum en hann var með 49,8 milljónir króna í árslaun samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2017. Árslaun Sigurðar Viðarssonar, forstjóra TM, högguðust lítið milli ára. Þau hækkuðu um 0,6% og nema nú 51,4 milljónum. VÍS hafði ekki skilað ársreikningi þegar fréttin var skrifuð. Orri Hauksson, forstjóri Símans, fékk hins vegar ríflega hækkun upp á 12,4%. Hann var með 48,2 milljónir króna í árslaun á síðasta ári. 

Graf/mbl.is

Mestu launahækkunina fékk Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1. Hún hljóðaði upp á 20,7% og þrýsti árslaununum upp í 70,5 milljónir króna. Finnur Oddsson hjá Origo hækkaði úr 43,2 milljónum upp í 45,7 milljónir en það er hækkun upp á 5,8%. 

Launakjör Björgólfs Jóhannssonar hjá Icelandair breyttust lítillega. Þau hreyfðust upp á við um 2,8% og nema nú 55,5 milljónum. Svipaða sögu má segja um laun Gylfa Sigfússonar, forstjóra Eimskips, sem hækkuðu um 0,9%. Grunnlaun hans voru 68 milljónir á ári en þá eru ótaldir kaupaukar og önnur fríðindi sem hækkuðu heildarlaunin í 102,6 milljónir. Heildarlaun Gylfa árið 2016 voru 94,3 milljónir. 

Þegar grunnlaun eru skoðuð lækkaði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, um 6,4% í launum. Grunnlaun Birnu námu 48,3 milljónum á síðasta ári. Hún fékk þó hærri árangurstengdar greiðslur, eða 9,7 milljónir í samanburði við 9,1 milljón árið 2016. 

Grunnlaun Höskuldar H. Ólafssonar, bankastjóra Arion banka, hækkuðu um 6,5% upp í 62 milljónir á ársgrundvelli. Eins hækkuðu árangurstengdar greiðslur til Höskuldar úr 7,1 milljón árið 2016 í 9,2 milljónir árið 2017. Þar sem Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, hóf störf síðasta vor var ekki unnt að mæla breytingu á milli ára en í ársreikningi Landsbankans voru launagreiðslur til Lilju skráðar 27 milljónir króna. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK