41% minni hagnaður hjá Högum

mbl.is/Eggert

Hagar högnuðust um 2,4 milljarða króna á síðasta rekstrarári sem nær frá 1. mars 2017 til 28. febrúar 2018. Hagnaður félagsins rekstrarárið á undan nam 4 milljörðum og dróst hagnaðurinn því saman um tæplega 41% á milli ára.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að verðhjöðnun hafi haft mikil áhrif á rekstur félagsins á rekstrarárinu, í samanburði við fyrra ár. Verðhjöðnun hafi einkum verið tilkomin vegna styrkingar íslensku krónunnar, betri innkaupa og lægra innkaupsverðs. Breytt samkeppnisumhverfi hefur einnig haft áhrif á rekstur félagsins auk þess sem tímabundnar lokanir og breytingar á lykilverslunum hafði neikvæð áhrif.

Framlegð félagsins var 18.318 milljónir króna, samanborið við 19.992 milljónir áður eða 24,8% framlegðarhlutfall samanborið við 24,8% á fyrra ári. „Þá er ljóst að ef borin er saman framlegð á milli ára að styrking krónunnar og betri innkaupsverð hafa skilað sér í lægra vöruverði til hagsbóta fyrir viðskiptavini félagsins,“ segir í tilkynningunni.

Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 255 milljónir króna milli ára en hækkunin nemur um 3,3%. Launahlutfallið er nú 11,0% en var 9,7% á fyrra ári. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 7 milljónir milli ára og er kostnaðarhlutfallið nú 8,6%, samanborið við 7,9% á fyrra ári. Kostnaðarhlutfallið í heild hækkar úr 17,7% í 19,6%.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir