Vilja framleiða íslenskan dróna-fugl

Dróninn „The Silent Flyer“ þróaður af fyrirtækinu Flygildi ehf. er ...
Dróninn „The Silent Flyer“ þróaður af fyrirtækinu Flygildi ehf. er sagður sá fyrsti sinnar tegundar. Ljósmynd/Flygildi ehf.

„Dróninn er með alla hreyfigetu venjulegs fugls,“ segir Hjalti Harðarson, framkvæmdastjóri íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Flygildis ehf., í samtali við mbl.is. Fyrirtækið segist á heimasíðu sinni hafa fundið „hið heilaga gral“ í drónatækni, en fyrirtækið hefur þróað dróna sem getur flogið án hreyfla og hljóðlaust.

Þessi nýi dróni hefur vakið nokkra athygli, en fjallað hefur verið um þessa hönnun fyrirtækisins hjá Business Insider.

Hjalti segir marga dróna sem notaðir eru geta heyrst og þeir sjást auðveldlega, þetta getur dregið úr skilvirkni þeirra. Fyrirtækið hefur hannað dróna sem hefur „alla hreyfigetu venjulegs fugls,“ að sögn hans. Nýtir dróninn því enga hreyfla og getur nýtt sér uppstreymi og svifið eins og fuglar gera sem gefur „betri orkunýtingu en aðrir drónar og hefur hann einnig lengri flugtíma,“ segir Hjalti.

Framkvæmdastjórinn og uppfinningamaðurinn segir þessa tegund nýtast vel í verkefni þar sem mikilvægt er að valda ekki hávaða og hægt er að klæða tækið í nánast hvaða fuglagervi sem er, svo sem máv eða hrafn.

Frumstæðar útgáfur eru þegar til af tækinu, en það eru að mestu leikföng, samkvæmt Hjalta. Hann segir að þýskt fyrirtæki þegar hafa hannað fugla-dróna, en að hann byggi á sambærilegri tækni og notuð er í fyrrnefnd leikföng.

Kenna tækinu að fljúga

Hjalti segir það færast í aukana að litið er til náttúrunnar til þess að finna lausnir í þróun og hönnun tækja. Hann bætir við að „menn eru líka alltaf að uppgötva einhverjar nýjar lausnir sem er að finna í náttúrunni“.

Hönnun drónans er eitt, en annað að fá hann til þess að fljúga. Notuð er gervigreind til þess að þróa hugbúnaðinn til þess að geta flogið eins og fugl, þá þarf í raun að kenna tækinu að fljúga. Þegar hugbúnaðurinn er fullþróaður er síðan hægt að skapa fullmótað forrit sem notað er í önnur tæki.

Hjalti sér fyrir sér að hægt verði að nota þessa tækni í fleiri hliðstæða dróna sem eru stærri eða minni, en þá muni þurfa að kenna þeim að fljúga að nýja þar sem breyturnar sem hafa áhrif á flugið eru aðrar.

Hafmynd ehf. hlaut árið 2016 Nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráðs. Hjalti ...
Hafmynd ehf. hlaut árið 2016 Nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráðs. Hjalti Harðarson er hér annar frá hægri. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Hefur staðið að fleiri nýjungum

Samkvæmt Hjalta hefur verið unnið að þróun tækisins í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og tækniháskólann Chalmers í Svíþjóð. Flygildi er nú að leita frekari fjárfesta og segir Hjalti að eitt þýskt fyrirtæki hafi sýnt þessu áhuga og stendur til á næstu dögum að funda með mögulegum fjárfestum frá Bandaríkjunum.

Hjalti hefur komið að stofnun fleiri tæknifyrirtækja en hann var meðal stofnenda Hafmyndar ehf. sem í dag er þekkt sem Teledyne Gavia, hluti af Teldyne Inc. í Bandaríkjunum. Einnig kom hann að stofnun Hugrúnar ehf., sem nú heitir Hugrun Scientific Instruments AS og starfar í Noregi.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir