Lokaverð í útboði Arion banka 75 kr./hlut

Lokaverð í frumútboði Arion banka var 75 krónur á hlut, eða 6,11 sænskar krónur. Voru seldir hlutir fyrir samtals 39.028 milljónir, eða 3.180 milljónir sænskra króna. Miðað við þetta er markaðsvirði bankans um 135,75 milljarðar, en viðskipti í kauphöllum bæði á Íslandi og í Svíþjóð hefjast í dag kl 9:30 að íslenskum tíma.

Í tilkynningu frá Arion banka kemur fram að alls verði 452.500.000 bréf seljenda seld í frumútboðinu, en að auki verða allt að 67.875.000 hlutabréf í eigu seljenda gerð aðgengilegt til að mæta mögulegri umframeftirspurn. Að því gefnu að síðarnefndu hlutabréfin verði einnig seld þá verða alls seld hlutabréf í Arion banka í frumútboðinu fyrir 39 milljarða, eða 3.180 milljónir sænskra króna. Gert er ráð fyrir að frjálst flot verði um 30,9% af markaðsvirðinu.

Fram kemur að margföld umframeftirspurn hafi verið í útboðinu og því verði sem viðskiptin fóru fram á. Hafi áhugi bæði verið frá almennum fjárfestum á Íslandi og í Svíþjóð, sem og frá fagfjárfestum frá Íslandi, Bandaríkjunum og Evrópu.

Haft er eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, að hann sé ánægður með áhugann í skráningarferlinu: „Við erum ánægð og stolt af þeim áhuga sem bankanum var sýndur í skráningarferlinu, bæði frá almenningi og stofnanafjárfestum á Íslandi og í Bandaríkjunum, Bretlandi, á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Þetta er viðurkenning á þeim góða árangri sem bankinn hefur náð og sterkri stöðu hans og íslensks efnahagslífs. Við erum ekki síður ánægð með þau tímamót sem felast í skráningu bankans í kauphöll í Reykjavík og Stokkhólmi.“

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka. mbl.is/Eggert
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir