Fá ríflega tveggja milljarða styrk

Orkuveita Reykjavíkur (OR) ásamt samstarfsaðilum hefur hlotið ríflega tveggja milljarða króna styrk úr Horizon 2020 Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Styrkurinn er til verkefnisins GECO, sem miðar að sporlausri nýtingu jarðhita.

OR leiðir þetta samstarfsverkefni 18 fyrirtækja og stofnana víðs vegar að úr Evrópu. Markmið GECO, sem stendur fyrir Geothermal Emission Control, er að þróa jarðhitavirkjanir með sem allra minnsta losun koltvíoxíðs (CO2) og brennisteinsvetnis (H2S). Það byggir að stórum hluta á CarbFix-niðurdælingar-aðferðinni sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun undanfarinn áratug í samstarfi við Orku náttúrunnar og innlendar og erlendar rannsóknastofnanir.

Gengið var frá formsatriðum varðandi styrkinn nú fyrir helgi og á næstu dögum mun OR auglýsa eftir sérfræðingum til að vinna að verkefninu, segir í tilkynningu. 

Verkefnisstjórn er í höndum OR og er Bergur Sigfússon, dr. í jarðefnafræði og fagstjóri á þróunarsviði OR, verkefnastjóri þess. Styrkþegar eru alls 18 talsins og á Íslandi eru það: Orka náttúrunnar, Háskóli Íslands, ÍSOR, og GEORG, rannsóknaklasi í jarðhita. Verkefnið stendur í fjögur ár og er heildarstyrkfjárhæð 2.065 milljónir króna. Þarf af renna 410 milljónir til OR og 330 milljónir fara til annarra íslenskra þátttakenda.

CarbFix-aðferðin, stundum nefnd Gas í grjót, felst í að leysa koltvíoxíð og brennisteinsvetni upp í vatni og dæla þeim djúpt niður í basaltberglögin við Hellisheiðarvirkjun. Þar losna efni úr basaltinu sem bindast lofttegundunum og mynda stöðugar steintegundir, t.d. silfurberg og glópagull, innan tveggja ára. CO2 og H2S er þannig steinrunnið í berggrunninum til frambúðar. Þessi aðferð er ódýrari en hefðbundnar hreinsunaraðferðir á þessu jarðhitalofti og leiðir til langtímabindingar þess.

Með GECO verkefninu verður CarbFix aðferðin þróuð enn frekar og henni beitt víðar. Auk Íslands verður hún prófuð á Ítalíu, í Tyrklandi og í Þýskalandi. Jarðhitalofti verður dælt niður í fjórar gerðir berggrunns til að prófa hvort ekki sé hægt að beita aðferðinni víðar en hér. Í verkefninu er mikil áhersla á umhverfisvöktun og að auka skilning á hegðun jarðhitalofttegunda til lengri og skemmri tíma eftir að þeim hefur verið dælt niður í berggrunn, samkvæmt fréttatilkynningu frá OR.

Í GECO verkefninu verða einnig þróaðar aðferðir sem stuðla að hagnýtingu jarðhitalofttegunda. Unnið verður að enn umhverfisvænni og sparneytnari aðferðum við hreinsun koltvíoxíðs með hagnýtingu í huga og þannig auka tekjumöguleika við jarðhitanýtinguna. Lykill að því er að skilja lofttegundirnar CO2 og H2S algerlega að og verða slíkar aðferðir prófaðar við jarðhitavirkjanir Orku náttúrunnar, Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK