Viðskipti með Sýn fyrir 2 milljarða

Ljósmynd/Aðsend

Viðskipti voru með hlutabréf Sýnar, móðurfélags Vodafone, Stöðvar 2 og Vísis og fleiri fyrirtækja, í morgun fyrir tæpa tvo milljarða. Ekki hefur verið upplýst um hver var að selja en alls er um 11% hlut í félaginu að ræða. 

Heimildir Fréttablaðsins eru að félagið sem á Fréttablaðið, 365 miðlar, hafi selt allan hlut sinn í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða króna og keypt ríflega þriggja prósenta hlut í Högum fyrir hátt í 1,8 milljarða króna. Gengið var frá viðskiptunum í morgun, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Ingibjörg Pálmadóttir.
Ingibjörg Pálmadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

365 miðlar voru þriðji stærsti hluthafi Sýnar með tæplega 11 prósenta hlut en félagið eignaðist hlutinn í kjölfar kaupa Sýnar, þá Fjarskipta, á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og Glamour.

Mbl.is hafði samband við Sýn í morgun vegna viðskiptanna en fjárfestatengill félagsins hafði ekki fengið upplýsingar um viðskiptin. 

Aðeins hefur verið tilkynnt um kaup Ursus, félags í eigu Heiðars Guðjónssonar, á um 10% af þessum viðskiptum, það er Ursus keypti 3.250.000 hluti á genginu 61,5. Viðskipti upp á tæpar 200 milljónir króna. Heiðar er stjórnarformaður Sýnar.

Þegar Samkeppniseftirlitið samþykkti söluna á ljósvakamiðlum 365 og Vísi til Vodafone fyrir tæpu ári var það gert að skilyrði að 365 miðlar þyrftu annaðhvort að selja rekstur Fréttablaðsins og frett.is/frettabladid.is eða eignarhlut sinn í Vodafone (Fjarskiptum hf.) innan tiltekins tíma.

Þangað til það hefur verið gert hafa 365 miðlar hf. skuldbundið sig til að auka ekki við eignarhlut sinn í Vodafone. Jafnframt mun félagið ekki eiga fulltrúa í stjórn eða koma að vali stjórnarmanna, auk þess sem þeim er óheimilt að hlutast til um málefni Vodafone sem tengjast beint samkeppni við Fréttablaðið.

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigendur 365, það er Fréttablaðsins, eru hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem áður voru meðal helstu eigenda Baugs sem þá átti Haga. 

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að félög tengd Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla, áttu fyrir yfir tveggja prósenta hlut í Högum, einkum í gegnum fjármögnun hjá Kviku, þannig að miðað við þær upplýsingar er hlutur hennar kominn yfir 5% í Högum.

Meginstarfsemi Haga er á sviði matvöru en innan þess eru tvær af stærstu verslunarkeðjum landsins, Bónus og Hagkaup.

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti myndast flöggunarskylda þegar viðskipti eiga sér stað með hlutabréf í skráðum félögum fari viðskiptin yfir 5% af útgefnu hlutafé. Tilkynna skal um viðskiptin til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins eins fljótt og auðið er og eigi síðar en næsta viðskiptadag eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK