Vaxtarverkir hjá veitingahúsakeðjunni Le Kock

Hamborgarar Le Kock hafa slegið í gegn, og keðjan hefur …
Hamborgarar Le Kock hafa slegið í gegn, og keðjan hefur vaxið ört. Nú stefnir í að eigendahópurinn tvístrist. mbl.is/Árni Sæberg

Vaxtarverkir hrjá nú veitingahúsakeðjuna Le Kock, sem stækkað hefur með ótrúlegum hraða á einu ári, en aðeins er rúmt eitt ár síðan fyrsti staðurinn af þremur var opnaður í Ármúla 42. Nú síðast þurfti fyrirtækið að hætta við opnun nýs staðar við Fiskislóð í Reykjavík þar sem hugmyndin var að reka bakarí um helgar, en nota aðstöðuna á virkum dögum til að baka hamborgarabrauð fyrir veitingastaði sína við Ármúla og í Exeter-hótelinu við Tryggvagötu.

Ofninn var of stór

Í samtali Morgunblaðsins við einn eigenda Le Kock, Karl Óskar Smárason, kemur fram að ástæða þess að grundvöllur fyrir opnun staðarins við Fiskislóð var kannaður í upphafi hafi verið sú að sérstakur kaldhefingarofn sem pantaður hafi verið fyrir veitingastaðinn í Exeter-hótelinu hafi reynst vera of stór, og því hafi eigendur fengið þá hugmynd að nýta ofninn á nýjum stað við Fiskislóð, í húsnæði sem fiskbúðin Hafið var með á leigu áður. Hafið hefur nú flutt þá starfsemi í eigið húsnæði við Hafnarfjarðarhöfn.

Le Kock réðst í talsverðar breytingar og lagfæringar á húsnæðinu við Fiskislóð áður en ákveðið var að bakka tímabundið út úr verkefninu, og setja það á ís, eins og Karl orðar það. Hann segir að samkomulag hafi orðið með þeim og eiganda húsnæðisins um að hann myndi sjá um að finna nýja leigjendur, enda hefði Le Kock lagt í nokkurn kostnað við standsetningu húsnæðisins. Ofninn sem um ræðir, og var fluttur inn af Bakarateknik ehf., heildsölunni sem flytur m.a. inn búnað fyrir bakaríið vinsæla Brauð og Co, er nú til sölu.

„Planið var að opna þarna bakaríshorn sem væri bara opið um helgar, þar sem alltaf væri eitthvað nýtt í boði. Við ákváðum hins vegar að þetta væri ekki rétti tíminn núna. Við vorum nýbúnir að opna niðri í bæ og vorum kannski aðeins of stórhuga á þessum tímapunkti að ætla að opna strax á nýjum stað. Það er betra að fara ekki fram úr sér,“ segir Karl. 

Staðan á veitingamarkaði er snúin um þessar mundir. Gríðarlegt framboð er af veitingastöðum, samkeppnin er mikil og fáir að bera eitthvað úr býtum að ráði, að því er aðilar kunnugir markaðnum hafa sagt Morgunblaðinu. Heimildir Morgunblaðsins herma að staðir Le Kock við Ármúla og við Seljabraut, bakaríið Deig, hafi þó gengið vel. Veitingastaðurinn í Exeter-hótelinu hefur hins vegar farið hægar af stað en vonast var til. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK