Vilhelm Már nýr forstjóri Eimskips

Vilhelm Már Þorsteinsson hefur verið ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands.
Vilhelm Már Þorsteinsson hefur verið ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands. Ljósmynd/Eimskip

Vilhelm Már Þorsteinsson hefur verið ráðinn í starf forstjóra Eimskipafélags Íslands og hefur hann störf 24. janúar. Fram kemur í fréttatilkynningu að Vilhelm hafi verið framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestasviðs Íslandsbanka hf. undanfarin ár.

„Vilhelm hefur starfað hjá Íslandsbanka í tuttugu ár og sinnt þar fjölbreyttum og krefjandi verkefnum, lengst af sem stjórnandi og setið í framkvæmdastjórn bankans. Í störfum sínum hefur hann öðlast víðtæka þekkingu og reynslu á fjármálamörkuðum og í fyrirtækjarekstri, sem mun nýtast vel í nýju starfi hjá Eimskip,“ segir enn fremur.

Haft er eftir Vilhelm að hann sé þakklátur fyrir það traust sem honum sé sýnt til að leiða Eimskip sem sé öflugt fyrirtæki í traustum rekstri.

„Þar bætist ég í góðan hóp starfsfólks og stjórnenda sem hafa mikla reynslu af flutningastarfsemi og ég hlakka til að starfa með. Ég hef átt frábær ár hjá Íslandsbanka þar sem starfsemin hefur tekið stöðugum breytingum í gegnum árin. Ég tek með mér mikilvæga reynslu úr þeim störfum þegar ég sný mér nú að nýjum verkefnum, sem fela meðal annars í sér að byggja upp starfsemi Eimskips á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið.“

Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, segir að með með ráðningu Vilhelms fái Eimskipafélagið öflugan stjórnanda sem hafi sýnt að hann kunni að leiða saman fólk til að vinna samhent að settu marki og ná árangri. „Eftir störf sín hjá Íslandsbanka býr hann yfir innsýn og þekkingu á rekstri fyrirtækja í síbreytilegu og krefjandi umhverfi ásamt því að búa yfir nauðsynlegri framsýni til að leiða Eimskip fram á veginn.“

Baldvin tekur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar að rétt sé að geta þess að afar þeirra Vilhelms hafi verið bræður og feður þeirra hafi stofnað saman útgerðarfélagið Samherja ásamt föðurbróður Vilhelms fyrir um 35 árum síðan.

„Sem kunnugt er skildu leiðir feðra okkar í viðskiptum fyrir 20 árum. Frá þeim tíma hafa ekki verið fjárhagslegir eða viðskiptalegir hagsmunir á milli okkar eða fjölskyldna okkar,“ er haft eftir Baldvini í tilkynningu um ráðninguna.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir