Olíusjóðurinn hættir að fjárfesta í olíu og gasi

Siv Jensen tilkynnti ákvörðun ríkisstjórnarinnar en hún er talin munu …
Siv Jensen tilkynnti ákvörðun ríkisstjórnarinnar en hún er talin munu hafa mikil áhrif á olíumarkaðinn. AFP

Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs, hefur tilkynnt að ríkisstjórn landsins hafi beint þeim tilmælum til Norska lífeyrissjóðsins, sem áður nefndist Norski olíusjóðurinn, að hann selji hlutabréf sín í fyrirtækjum sem einvörðungu sinna leit og framleiðslu á gasi og olíu. Sjóðurinn er stærsti lífeyrissjóður í heimi en heildareignir hans eru metnar á yfir eina billjón dollara, það jafngildir 121 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Norski lífeyrissjóðurinn á 37 milljarða dollara í hlutabréfum fyrirtækja sem standa í olíu- og gasframleiðslu. Segir ríkisstjórn landsins að með aðgerðinni sé verið að draga úr áhættu í norsku hagkerfi.

Norski olíusjóðurinn hyggst draga sig út úr hlutabréfum fyrirtækja sem …
Norski olíusjóðurinn hyggst draga sig út úr hlutabréfum fyrirtækja sem einvörðungu leita að og framleiða gas og olíu. AFP

Á 2% í stærstu olíufyrirtækjum heims

Hlutabréfaeign sjóðsins í olíu- og gasfyrirtækjum svaraði til 5,9% af hlutabréfasafni hans. Á hann t.a.m. yfir 2% í olíurisunum BP, Royal Dutch Shell og Total og um 1% hlut í Exxon Mobil og Chevron.

„Markmiðið er að gera sameiginlegan auð okkar síður útsettan fyrir viðvarandi falli olíuverðs,“ sagði Siv Jensen við þetta tilefni.

Segir í frétt Financial Times að ákvörðun ríkisstjórnar Noregs feli í sér umfangsmestu sölu á eignum tengdum olíu- og gasframleiðslu í sögunni. Siv heldur því hins vegar fram að ákvörðunin feli ekki í sér neina stefnubreytingu hvað varðar olíuiðnaðinn sem slíkan.

„Olíuiðnaðurinn verður umfangsmikill og mikilvægur iðnaður í Noregi á komandi árum,“ sagði ráðherrann og ítrekaði að ákvörðunin að þessu sinni sneri einvörðungu að því að dreifa áhættu sjóðsins meira.

Þrátt fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar mun Norski lífeyrissjóðurinn enn geta fjárfest í olíu- og gasfyrirtækjum ef þau vinna einnig að framþróun endurnýjanlegra orkugjafa. „Allt bendir til þess að nær allur vöxtur skráðra fyrirtækja sem vinna að uppbyggingu innviða fyrir endurnýjanlega orkugjafa á næstu 10 árum mun eiga sér stað innan fyrirtækja sem ekki hafa það að meginmarkmiði. Það er vöxtur sem sjóðurinn mun eiga þess kost að koma að,“ sagði fjármálaráðherrann norski.

Á 1,4% í öllum skráðum hlutabréfum heimsins

Í dag á sjóðurinn hlutabréf í 9.158 fyrirtækjum í 73 löndum heimsins. Meðal félaga sem sjóðurinn á í eru flest stærstu fyrirtæki í heimi. Í þeim hópi eru Apple, Nestlé, Microsoft og Samsung. Sjóðurinn á að meðaltali 1,4% í öllum skráðum hlutafélögum í heiminum.

Sjóðurinn skilaði neikvæðri ávöxtun sem nam 6,1% í fyrra og tapaði 485 milljörðum norskra króna. Það jafngildir tæplega 6.900 milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK