Coripharma kaupir lyfjaþróun Actavis

Bjarni K. Þorvarðarson, forstjóri Coripharma.
Bjarni K. Þorvarðarson, forstjóri Coripharma. Ljósmynd/Aðsend

Lyfjafyrirtækin Coripharma og Teva  hafa undirritað samkomulag um kaup Coripharma á lyfjaþróun Actavis í Hafnarfirði. Kaupverðið er ekki gefið upp.

Við kaupin eignast Coripharma lyfjaþróunarverkefni sem starfsfólk Actavis hefur unnið að síðustu misseri, ásamt tækjum til rannsókna og lyfjaþróunar.

Þá kaupir Coripharma þrjár byggingar við Reykjavíkurveg 78 og 80 sem bætast við lyfjaverksmiðjuna  sem Coripharma keypti af Teva og hóf starfsemi í á síðasta ári, að því er fram kemur í tilkynningu frá Coripharma.

„Coripharma hefur sérhæft sig í framleiðslu lyfja fyrir önnur lyfjafyrirtæki um heim allan, og mun nú einnig bjóða þeim þjónustu sem snýr að rannsóknum og þróun ásamt því að þróa sín eigin lyf.

Áætlað er að 54 starfsmenn þróunareiningarinnar flytjist formlega til Coripharma 8. maí. Um 40 manns hafa unnið að uppbyggingu Coripharma í Hafnarfirði síðan í fyrra,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

„Við höfum frá upphafi stefnt að því að byggja upp lyfjafyrirtæki sem nýtir þá reynslu og þann kraft sem er hér þegar til staðar, sem má  að hluta rekja má til þess tíma sem Actavis var hvað öflugast, en við ætlum ekki síður að byggja upp framsækið frumkvöðlafyrirtæki sem sækir á nýjar slóðir. Okkar áætlanir hafa miðað við að tvöfalda starfsmannafjölda fyrirtækisins á árinu 2019, og aftur 2020 þegar verksmiðjan verður farin að framleiða á fullum afköstum. Við réðum 35 fyrrverandi starfsmenn Actavis eftir að við keyptum verksmiðjuna í fyrra og erum að ná markmiði ársins. Auk þess bætist nú við öll þessi reynsla í rannsóknum og þróun,“ segir Bjarni K. Þorvarðarson, forstjóri Coripharma, í tilkynninguni.

Coripharma tekur yfir fjölda þróunarverkefna á mismundi stigum og reiknað er með fyrstu lyfjunum í sölu á árinu 2021.  Með kaupum á þróunarverksmiðjunni næst einnig betri heildarnýting og sveigjanleiki á framleiðslueiningu Coripharma.  

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK