Lifði af hverja tæknibyltinguna á fætur annarri

Jack Dangermond stofnaði Esri ásamt konu sinni, Laura, fyrir hálfri …
Jack Dangermond stofnaði Esri ásamt konu sinni, Laura, fyrir hálfri öld. Haraldur Jónasson/Hari

Jack Dangermond stofnaði fyrirtækið Esri fyrir hálfri öld og er jafnan kallaður guðfaðir stafrænnar kortagerðar. 350 þúsund fyrirtæki nota hugbúnað fyrirtækisins í dag en birtingarmyndir hans eru nánast ósýnilegar í daglegu lífi almennings. Í stuttu máli aðstoðar hugbúnaður fyrirtækisins við töku ákvarðana byggðra á staðsetningu og öðrum umhverfisþáttum. Flutningafyrirtækið UPS sparaði á síðasta ári 400 milljónir bandaríkjadala með notkun hugbúnaðarins, Starbucks nýtir sér hann til þess að greina hagkvæmar staðsetningar fyrir kaffihúsin og Neyðarlínan nýtir sér hann til þess að kortleggja aðstæður fólks í neyð.

Jack Dangermond er alúðlegur í fasi er hann hittir blaðamann, fyrst í lyftunni á Hótel Reykjavik Natura, þar sem við stefnum á fundarherbergi á þriðju hæðinni til þess að spjalla saman. Dangermond er hér á landi á ArcÍS-ráðstefnu á vegum Samsýnar þar sem notendur hugbúnaðarins sem Dangermond hefur þróað undanfarin 50 ár koma saman. „Ein ástæðan fyrir því að við höfum notið velgengni er sú að við skipuleggjum þessar notendaráðstefnur, venjulega einu sinni á ári en annað hvert ár á Íslandi, þar sem við kynnum fyrir notendum hvað er á döfinni og þeir segja okkur frá þeim vandamálum sem þeir hafa mætt við að nota hugbúnaðinn. Við nýtum svo bolmagn okkar til þess að takast á við þessi vandamál,“ segir Dangermond. Önnur ástæða fyrir veru Dangermonds á Íslandi er að á hverju ári hittast fulltrúar þeirra fyrirtækja í Evrópu sem þjónusta hugbúnað Esri til að ræða málin. Í þetta skiptið var kosið um að hittast á Íslandi. Þessir fundir eru mikilvægir fyrir starfsemi fyrirtækisins til að taka á málum sem tengjast Evrópu að sögn Dangermonds.

Byggt á grunni Dangermonds

Dangermond er stundum kallaður guðfaðir stafrænnar kortagerðar og er frumkvöðull á sínu sviði. John Hanke, sem fór fyrir landfræðideild Google í sex ár, hefur sagt að vörur eins og Google Earth, Google Maps og Google Street View hafi verið „byggðar á þeim grunni sem hann [Dangermond] lagði“.

Esri heitir fyrirtækið sem Jack Dangermond stofnaði ásamt konu sinni Lauru Dangermond fyrir hálfri öld og er alfarið í þeirra eigu. Fyrirtækið hóf starfsemi árið 1969 og hefur lifað af hverja tæknibyltinguna á fætur annarri og keyrði hugbúnað sinn fyrst um sinn á smátölvum. Esri velti vel yfir einum milljarði Bandaríkjadala árið 2018 og hefur um átta milljónir notenda í dag. 350 þúsund fyrirtæki, stofnanir og frjáls félagasamtök nota hugbúnað fyrirtækisins sem aðstoðar við töku ákvarðana sem byggjast á staðsetningu og öðrum umhverfisþáttum.

Í samtali mínu við Dangermond kemur bersýnilega í ljós að þar er ekki á ferð neinn venjulegur maður. Hvað þá viðskiptamaður. Raunar hefur Bill Gates, stofnandi Microsoft, lýst vini sínum sem einstökum (e. one of a kind). Hann hefur engan áhuga á peningum sem slíkum að eigin sögn en þrátt fyrir það er auður hans metinn á 4,7 milljarða bandaríkjadala. Nafn fyrirtækisins og vörumerki er skammstöfun fyrir Environmental System Research Institute og ber þess kannski ekki endilega merki að miklum fjármunum hafi verið varið í hugmyndavinnu fyrir það. 4.000 starfsmenn eru hjá fyrirtækinu sem hefur starfsstöðvar í 73 löndum, en höfuðstöðvar þess í Redlands í Kaliforníu eru aðeins steinsnar frá því þar sem Dangermond ólst upp og vann sem ungur maður í gróðrarstöð sem foreldrar hans stofnuðu á sínum tíma. Þar lærði hann mikilvægustu gildin í lífinu að eigin sögn. „Það er frábær myndlíking, finnst mér, að hafa alist upp við að vinna í gróðrarstöð. Það var frábær menntun og myndlíking fyrir lífið. Að vökva plöntur, hugsa um þær og rækta, hugsa um viðskiptavini og hlusta. Ég lærði allt um viðskipti í gróðrarstöðinni. Það er hverju orði sannara,“ segir Dangermond.

Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK