„Fyrirtæki sem vill komast á ríkisspena“ brjóti á farþegum

„Þessi réttur er alveg skýlaus og það hefur iðullega verið …
„Þessi réttur er alveg skýlaus og það hefur iðullega verið dæmt farþegum í hag og það hefur ítekað látið reyna á reglurnar í Evrópuréttinum,“ segir Ómar. mbl.is/Árni Sæberg

Air Iceland Connect hefur skert rétt farþega sinna til að krefjast greiðslu bóta með skilmálabreytingum. Er réttur farþega nú verulega takmarkaður. Þetta segir Ómar R. Valdimarsson lögmaður.

Ómar starfar fyrir Flugbætur.is, þjónustu sem aðstoðar fólk við að leita réttar síns vegna seinkana á flugi, niðurfellinga og yfirbókana. Flugbætur.is stefna nú Air Iceland Connect fyrir hönd farþega og ætla sér að láta reyna á reglur félagsins.

Í skilmálabreytingunum er tekið fram að farþegar megi ekki fá lögmenn eða aðra innheimtuaðila til að krefjast bóta.

Rétturinn skýlaus

Ómar telur að skilmálabreytingarnar brjóti í bága við Evrópureglugerð nr. 261/2004 sem innleidd hefur verið á Íslandi. Þar er tekið fram að farþegar sem lenda í því að flugi þeirra seinkar verulega, er aflýst eða yfirbókað eigi rétt á skaðabótum. Í reglugerðinni er kveðið sérstaklega á um að ekki megi takmarka rétt farþega með ákvæðum í flutningssamningum.

„Það hefur margoft reynt á hana fyrir dómi í málum sem við höfum flutt. Þessi réttur er alveg skýlaus og það hefur iðulega verið dæmt farþegum í hag og það hefur ítrekað látið reyna á reglurnar í Evrópuréttinum. Samkvæmt lögunum um Evrópska efnahagssvæðið ber að túlka íslensk lög í samræmi við evrópskan rétt svo þetta er eins kristalskýrt og þetta getur orðið.“

Air Iceland Connect noti „elsta trikkið í bókinni“

Ómar segir að með þessum skilmálabreytingum sé Air Iceland Connect að bregða fæti fyrir farþega með því að koma í veg fyrir að þeir leiti réttar síns.

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður.
Ómar R. Valdimarsson, lögmaður.

„Þetta er elsta trikkið í bókinni, með því að svara ekki kröfum þá losnarðu við svona helminginn af þeim. Fyrirtækið veit að þegar þetta er komið í hendurnar á lögmönnum eða öðrum innheimtuaðilum þá keyra þeir málið í gegn. Einstaklingar eru að díla við stórfyrirtæki og þeir nenna því ekki.“

Ómar bendir á að Air Iceland Connect sé með her lögfræðinga á bak við sig.

„Það skýtur skökku við að Air Iceland Connect, fyrirtæki sem vill komast á ríkisspenann, skuli nýta sér stærstu lögmannsstofu landsins til þess að verja sína hagsmuni en síðan reyna þeir að bregða fæti fyrir ósköp venjulega Íslendinga sem eiga engra annarra kosta völ en að fljúga með þeim.“

Leggi stein í götu farþega

Um viðskiptahætti Air Iceland Connect segir Ómar: 

„Mér finnst þetta bara algjörlega ósiðlegt. Þetta eru ömurlegir viðskiptahættir og það er ömurlegt að farþegar séu látnir standa í einhverju svona veseni út af bótum sem þeir eiga lagalegan rétt á. Í staðinn fyrir að borga þetta bara þegjandi og hljóðalaust og vera ekki með þetta vesen þá ákveða þeir að fara í einhvern sirkus til þess að athuga hvort þeim sé stætt af því að leggja stein í götu þeirra sem sækja til þeirra þjónustu.“

Aðspurður segir Ómar að þó að farþeganum verði dæmt í vil þá þurfi það ekki að neyða Air Iceland Connect til að breyta skilmálum sínum.

„Við stefnum þeim í þessu máli og þar erum við bara að vinna samkvæmt kröfunni. Þeir munu sjálfsagt grípa til varna með því að vísa til skilmálanna sinna. Þá mun að sjálfsögðu reyna á það fyrir dómi hvort þeim sé heimilt að setja svona aðgangshindranir fyrir farþega sína. Þó svo að niðurstaða þessa máls komi til með að vera sú að þeim sé óheimilt að gera það þá er óvíst að það hafi fordæmisgildi fyrir fleiri en akkúrat þennan tiltekna farþega.“

Mál farþegans gegn Air Iceland Connect verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK