3,3 milljarða tap á fyrri helmingi ársins

Á sama tímabili í fyrra hagnaðist bankinn um 11,1 milljarða …
Á sama tímabili í fyrra hagnaðist bankinn um 11,1 milljarða króna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans fyrir fyrri helming ársins, sem gefið var út í dag. Er það töluverður viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra, þegar bankinn hagnaðist um 11,1 milljarð króna.

Landsbankinn hagnaðist um 341 milljón á öðrum ársfjórðungi og kemur það til móts við rúmlega 3,6 milljarða tap á fyrsta ársfjórðungi. Arðsemi eigin fjár var því neikvæð um 2,7% á ársgrundvelli samanborið við arðsemi upp á 9,1% á sama tímabili árið 2019.

Landsbankinn hefur aldrei lánað jafnmikið til heimila og á fyrri helmingi 2020. Alls tóku 3.963 einstaklingar og fjölskyldur íbúðalán hjá bankanum á fyrri helmingi ársins, að fjárhæð 36 milljarðar króna. Þá jukust innlán hjá bankanum um 51 milljarð króna frá áramótum, eða sem nemur 7,2%.

Virðisrýrnun útlánasafns bankans nam 13,4 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 2,4 milljarða á sama tímabili í fyra. Mat á væntu útlánatapi í lok fyrri helmings 2020 byggist á uppfærðri hagspá hagfræðideildar Landsbankans, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.

Rekstrarkostnaður bankans nam 13,2 milljörðum króna á tímabilinu, en hann lækkaði um 1,1 milljarð frá sama tímabili árið áður. Þar af var launakostnaður 7,6 milljarðar króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK