Lausnir Meniga aðgengilegar ítölskum bönkum

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga.
Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjártæknifyrirtækið Meniga hefur undirritað endursölusamning við ítalska greiðslufyrirtækið Nexi, stærsta greiðslufyrirtæki Ítalíu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Meniga.

„Samningurinn tryggir að lausnir Meniga verði aðgengilegar þeim fjölmörgu ítölsku bönkum sem nýta þjónustu Nexi. Um 150 ítalskir bankar nýta lausnir Nexi sem þjónustar um 890.000 fyrirtæki og 30 milljónir einstaklinga með 41 milljón greiðslukorta. Árið 2018 voru framkvæmdar 900 milljónir færslna með aðkomu Nexi.“

Yfirmaður stafrænnar þróunar hjá Nexi kveðst ánægður með samstarfið. 

„[Það] bætir gríðarlega vörulínu okkar í þeim stafrænu lausnum sem hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að nýta peningana sína sem best. Það verður því auðveldara fyrir ítalska banka að þróa og styrkja samband sitt við viðskiptavini og mæta þörfum þeirra,“ segir Renato Martini, yfirmaður stafrænnar þróunar hjá Nexi.

Fjármálalausnir fyrir fyrirtæki

Lausnir Meniga hjálpa fólki að halda utan um heimilisfjármálin sín. Tekjur og útgjöld eru flokkuð sjálfvirkt og fólk fær verkfæri til að bæta fjárhagslega heilsu sína.

„Meniga mun einnig leggja Nexi til fjármálalausnir fyrir minni og meðalstór fyrirtæki. Bankar með tengingu við Nexi geta nú boðið fyrirtækjum „stafrænan fjármálastjóra“ þar sem fjárhagsupplýsingum er stillt upp með einföldum hætti. Hugbúnaðurinn auðveldar allan fyrirtækjarekstur, stjórnun á sjóðsstreymi og færslu bókhalds.“

„Við erum hæstánægð með samstarf okkar við Nexi en sérþekking þessara tveggja fyrirtækja mun nýtast bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Bankar sem sækja fjártæknilausnir til Nexi munu nú geta boðið viðskiptavinum margfalt betri þjónustu og innsýn í fjármálin sín,“ er haft eftir Georg Lúðvíkssyni, forstjóra og meðstofnanda Meniga, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK