Landsvirkjun gefur út 20 milljarða kr. græn skuldabréf

Söluverð bréfanna fer í að endurfjármagna eldri lán og bæta …
Söluverð bréfanna fer í að endurfjármagna eldri lán og bæta lausafjárstöðu fyrirtækisins. mbl.is/Jón Pétur

Landsvirkjun hefur gefið út græn skuldabréf fyrir 150 milljónir bandaríkjadala (20 ma.kr.). Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Er þetta í annað sinn sem Landsvirkjun gefur út græn skuldabréf og var eftirspurn margföld umfram framboð.

Söluverð skuldabréfanna fer í að endurfjármagna eldri skuldir, auk þess að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækisins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun. Tekið er fram að fyrirtækið nýtir sér ekki ríkisábyrgð til fjármögnunar og hefur ekki gert frá 2011. 

Skuldabréf eru sögð græn hafi þau fengið vottun þess efnis að nota eigi fjármunina, sem safnast með útgáfu skuldabréfanna, í fjárfestingar í umhverfisvænum verkefnum. Nokkuð er þó á reiki hvaða skilyrði fjárfestingar þurfa að uppfylla til að teljast grænar.

Landsvirkjun gaf fyrst íslenskra fyrirtækja út græn skuldabréf árið 2018 og setti sér þá það skilyrði að fjármögnunin yrði nýtt til afmarkaðra nýrra verkefna eða endurfjármögnunar verkefna sem ekki máttu ná lengur en þrjú ár aftur í tímann. Var féð, sem safnaðist árið 2018, nýtt til að fjármagna orkuvinnslu í jarðhitastöðinni á Þeistareykjum og vatnsaflsstöðinni Búrfelli II.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að fyrirtækið sé fremst í flokki þeirra fyrirtækja á Íslandi sem feta leið grænna skuldabréfa til að fjármagna almennan rekstur. „Við þekkjum til tveggja annarra fyrirtækja í heiminum sem hafa farið í slíkar útgáfur. Annað starfar á sviði endurvinnslu og hitt hreinsar fráveituvatn,“ segir Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun.

„Það er leitun að fyrirtæki eins og Landvirkjun sem fer jafn kerfisbundið yfir öll mál hjá sér til að finna ávallt bestu lausnina. Verkefni okkar styðja líka við markmið annarra. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Landsvirkjun, sem er auðvitað í eigu þjóðarinnar, ætlar að ná því markmiði í starfi sínu árið 2025 og leggur þannig mikið af mörkum til að markmið stjórnvalda náist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK