Eistneskir fjárfestar atkvæðamiklir en Íslendingar lítt sjáanlegir

Mussila-tónlistarforritið safnar nú fé á Funderbeam, allt að 192 milljónum …
Mussila-tónlistarforritið safnar nú fé á Funderbeam, allt að 192 milljónum króna.

Í dag eru átta dagar eftir af fjármögnunarlotu íslenska tónlistarforritsins Mussila á eistneska fjármögnunar- og markaðstorginu Funderbeam, en félagið stefnir á að safna þar 600-1.270 þúsund evrum eða 90-192 milljónum króna. Söfnunin gengur vel, 172 þúsund evrur vantar upp á að ná lágmarkinu, en lágmarksfjárfesting í útboðinu er 250 evrur, eða um 38 þúsund krónur.

Runno Allikivi, yfirmaður Funderbeam á Norðurlöndum, segir að athygli veki hve þátttaka íslenskra fjárfesta er lítil á vettvanginum en áberandi stærstur hluti þátttakenda í Mussila-söfnuninni hingað til eru eistneskir fjárfestar.

Ástæðuna fyrir miklum áhuga Eista segir Runno m.a. vera þá að þeir séu reyndari í fjárfestingum sem þessari og í Eistlandi sé algengara að líta á að fjárfesting í nýsköpun sé fyrir allan almenning en ekki einungis fyrir lokaðan hóp fjárfesta.

Heimamenn hornsteinninn

Eistneski fjárfestirinn Ivar Mägi, sem fjárfest hefur í fleiri en einu íslensku fyrirtæki á Funderbeam, segir í samtali við Morgunblaðið að heimamenn ættu ávallt að vera hornsteinninn í baklandi sprotafyrirtækjanna. Erlendir fjárfestar líti til þeirra frumkvæðis enda hafi heimamenn betri skilning á umhverfinu sem fyrirtækið er sprottið úr. Ivar bendir á þá sérstöðu Funderbeam að þar sé hægt að fjárfesta fyrir mjög lágar upphæðir, jafnvel allt niður í eina evru á eftirmarkaði og kaupa svo og selja eftir hentugleika.

Sem dæmi um ávöxtun sem hægt er að fá á vettvanginum segir Ivar að íslenski hjólhýsasprotinn Mink Campers hafi vaxið töluvert að verðgildi á Funderbeam, en heildarverðmæti bréfa félagsins eins og þau eru skráð á Funderbeam er nálægt 900 milljónum króna. „Félagið spáir örum vexti og ætlar að selja vörur fyrir fimm milljónir evra á þessu ári, tíu á því næsta og tuttugu milljónir evra árið 2024. Ef það rætist er um frábæra fjárfestingu í bréfum félagsins að ræða,“ segir Ivar.

Byrjunarverð Mink á Funderbeam var 2,63 evrur á hlut en er núna 3,10. Markaðsverðið hefur því vaxið um 17%.

Mest verðhækkun síðustu tólf mánaða á Funderbeam er á verði eistneska rafhjólafyrirtækisins Ampler Bike eins og Ivar bendir á, en verðgildi bréfa félagsins hefur vaxið átjánfalt, eða úr einni evru á hlut árið 2017 í átján evrur.

Ivar er virkur í fjárfestingum á Funderbeam og þekkir því vel til. Hann segir að vettvangurinn gefi aðgang að fjölda sprotafyrirtækja á meðan að í Kauphöllinni í Eistlandi sé lítil endurnýjun og fá skráð fyrirtæki sem flest eru þroskuð og gamalgróin.

Sjálfur segist Ivar hafa hagnast mest á fjárfestingum í danska matvælasprotanum Grim Foods, en hann selur m.a. „ljótt“ grænmeti í áskrift. Ivar segir að viðskipti hafi aukist mikið á Funderbeam síðan hann hóf þátttöku á vettvanginum. Í fyrstu hafi viðskipti kannski numið 2-3 þúsund evrum í heildina á mánuði, en séu í dag komin upp í 1-2 milljónir evra á mánuði. Fjöldi viðskipta hafi áður verið í kringum 1.500 á mánuði en nú eigi um 7.000 viðskipti sér stað á mánuði.

„Með aukinni veltu á þessum markaði og tilkomu sífellt fleiri fyrirtækja, þá hef ég þá trú að viðskiptamagnið gæti vaxið upp í fimmtán milljónir evra á mánuði og viðskipti orðið 50 þúsund á mánuði. Ég hvet alla til að skoða Funderbeam og þau tækifæri sem þar bjóðast og þau íslensku fyrirtæki sem fjárfesta má í eins og Mussila, Flow og Mink Campers.“

Sex lotur

Madis Müür er þekktur englafjárfestir í Eistlandi. Hann segist í samtali við Morgunblaðið hafa tekið þátt í sex fjármögnunarlotum á Funderbeam þar sem hann hafi m.a. átt þátt í að safna saman fjárfestum. Auk þess skrifar hann bæði á netið og í blöð um fjárfestingar og veitir frumkvöðlum ráðgjöf. Sjálfur er hann með bakgrunn í pókerspilamennsku. „Ég hef fjárfest á venjulegum hlutabréfamarkaði frá árinu 2005 og tekið þátt í hópfjármögnunum. En eftir að ég kynntist englafjárfestingum fyrir 5-6 árum fór ég fljótlega með alla mína fjármuni yfir í sprotageirann og hef fengið mjög góða ávöxtun. Hún var til dæmis 90% á síðasta ári.“

Spurður um ábatasamar fjárfestingar nefnir Madis reiðhjólastandafyrirtækið Bikeep. Félagið hefur vaxið um 110% á einu ári að verðgildi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK