Stefna á fimmföld umsvif í júní

Starfsemi Icelandair group hefur legið í láginni síðustu misseri en …
Starfsemi Icelandair group hefur legið í láginni síðustu misseri en nú hillir undir að umsvifin aukist. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair Group gerir ráð fyrir að umsvif í flugi muni aukast hratt á sumri komanda. Þannig muni flugáætlun félagsins allt að því fimmfaldast frá því sem nú er þegar komið verður fram í lok júnímánaðar. Gert er ráð fyrir að á þeim tíma verði um 100 ferðir í boði hjá félaginu í viku hverri. Þetta kom fram á fundi lykilstjórnenda félagsins með flugmönnum í gær þar sem farið var yfir stöðuna fram undan.

Í gær greindi mbl.is frá því að Icelandair hefði ákveðið að ráða 24 flugmenn til viðbótar við þá tæplega 150 sem starfa hjá félaginu nú um stundir og að gert sé ráð fyrir að þeir komi til starfa í maímánuði. Þessa dagana eru 18 flugmenn að mæta til starfa sem ráðnir voru fyrr í þessum mánuði. Gangi áætlanir Icelandair eftir gerir félagið ráð fyrir að vera með 180-200 flugmenn að störfum í sumar en það mun þó ráðast af því hversu mikil eftirspurnin verður annars vegar frá Evrópu og hins vegar Bandaríkjunum og Kanada. Áætlanir félagsins gera einnig ráð fyrir að umsvifin í sumar verði um 55% miðað við það sem var upp á teningnum árið 2019. Er það í samræmi við áætlanir þær sem kynntar voru í tengslum við hlutafjárútboð í september í fyrra. Þó er gert ráð fyrir að upptakturinn í starfseminni verði um mánuði seinna á ferðinni en þá var lagt upp með.

Play í loftið 24. júní

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að forsvarsmenn Play hafi ákveðið að fyrsta flug félagsins verði á dagskrá hinn 24. júní næstkomandi. Sömu heimildir segja að farið sé með upplýsingar um fyrsta áfangastaðinn sem hreint hernaðarleyndarmál en að styttast fari í að tilkynnt verði um hann, enda þurfi rúman tíma til að selja í fyrstu sætin sem í boði verða. ViðskiptaMogginn hefur heimildir fyrir því að gert sé ráð fyrir að Play fái útgefið flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu í byrjun maímánaðar. Nú standa yfir lokaúttektir á vegum stofnunarinnar en þrjár A321-NEO vélar verða skráðar á leyfið fyrst í stað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK