Vill koma í veg fyrir fasteignabólu

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabankinn lækkaði í vikunni hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda úr 85% niður í 80%. Hámarkshlutfall fyrir fyrstu kaupendur er enn óbreytt eða 90%. 

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í Sprengjusandi á Bylgjunni í dag að um væri að ræða fyrirbyggjandi aðgerð til þess að koma í veg fyrir að fasteignabóla myndist og fasteignaverð fari upp úr öllu valdi. Hann bætti við að þótt fasteignaverð hefði hækkað mikið í ár hefði það hækkað án skuldsetningar. 

„Við vorum að færa veðsetningu niður í 80% fyrir fastakaupendur, við höfum alveg heimild til þess að færa hana niður í 60% til 70% en ég er ekki að segja að við gerum það. Við höfum líka heimild sem alþingi veitti okkur í júní að takmarka skuldsetningu varðandi ráðstöfunartekjur. Þannig að það takmarkist hvað fólk getur tekið mikið af peningum að láni varðandi ráðstöfunartekjur,“ sagði Ásgeir.

Vonar að þjóðin hafi lært af mistökunum

Hann sagði einnig að gríðarlegur skortur væri á húsnæði og veltuhraði fasteigna hefði aldrei verið minni.

„Þá skapast smá æsingur, í fyrsta lagi telur fólk að það þurfi að leggja allt í sölurnar til þess að ná þessum eignum og líka það að það skapast væntingar um að fasteignamarkaðurinn haldi áfram að hækka næstu ár og það sé allt í lagi að gíra sig upp í rjáfur, markaðurinn muni búa til eigið fé fyrir þig,“ sagði Ásgeir og jafnframt:

„Ég vona að íslenska þjóðin hafi lært af sínum mistökum. Það er ekki ráðlegt að gíra sig upp í rjáfur með ekkert eigið fé.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK