Matarkarfan hækkaði um allt að 16,6%

mbl.is/Brynjar Gauti

Vörukarfa Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hækkaði í átta af átta matvöruverslunum sem könnunin nær til á rúmlega sjö mánaða tímabili. Vörukarfan hækkaði á bilinu 5-17%, mest hjá Heimkaupum, 16,6% en minnst í Krónunni eða um 5,1%.

„Þetta er í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs á sama tímabili sem sýnir 6,2% hækkun á á mat- og drykkjarvöru. Næst mest hækkaði vörukarfan hjá Iceland, 12,4% og næst minnst hjá Bónus, 5,7%. Vörukarfa ASÍ endurspeglar almenn matarinnkaup meðalheimilis,“ segir í tilkynningu frá ASÍ um málið. 

Þar er þess getið að í tilkynningunni séu einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Því er ekki um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna.

33,8% hækkun á drykkjarvörum hjá Heimkaupum

Eins og áður segir hækkaði karfan mest hjá Heimkaupum. Drykkjarvörur er sá matvöruflokkur sem hækkaði mest hjá Heimkaupum, 33,8% en kjötvara minnst, 6,7%.

Næst mest hækkaði vörukarfan í Iceland, 12,4%. Mest hækkaði mjólkurvara hjá Iceland, 24,1% og er það mesta hækkun í þessum vöruflokki í könnuninni. Ef litið er til annarra verslana sem eru með meira vöruúrval, lengri opnunartíma eða eru staðsettar úti á landi má sjá að vörukarfan hækkar um 8,9% í Krambúðinni, um 7,5% í Kjörbúðinni og um 6,5% í Hagkaup.

Vörukarfan hækkar minnst í Krónunni

„Þegar litið er til lágvöruverðsverslana má sjá að vörukarfan hækkaði mest í Nettó, 8,7% en minnst í Krónunni, 5,1%. Í Nettó voru mestar verðhækkanir í flokki kjötvara, mjólkurvara, osta og eggja, 11% í báðum flokkum. Minnst hækkaði verð á drykkjarvöru í Nettó, 1,6%. Í Krónunni hækkaði kjötvara mest í verði, 10% og mjólkurvara, ostar og egg næst mest, 8%. Verð á grænmeti lækkaði hins vegar um 1,3% og verð ávöxtum um 0,8%. Verð í öðrum matvöruflokkum í versluninni hækkaði um 3-5%. Í Bónus hækkaði vörukarfan um 5,7% Í Bónus varð mest hækkun á ávöxtum á tímabilinu, 10,3%. Þar á eftir kemur 8,9% hækkun á hreinlætis- og snyrtivöru og 8,3% hækkun á mjólkurvöru, ostum og eggjum eins og sjá má í töflunni hér að neðan,“ segir í tilkynningunni.

„Miklar verðhækkanir voru í öllum vöruflokkum en mest hækkaði verð í flokki mjólkurvara, osta og eggja eða á bilinu 8-25%. Bæði hækkaði verð í flokknum að meðaltali mest, um 14,2% auk þess sem miklar verðhækkanir í vöruflokknum náðu til allra verslana. Verð á kjötvöru, ávöxtum og grænmeti hækkaði einnig mikið en hafa ber í huga að ávextir, grænmeti og kjötvara eru matvöruflokkar þar sem verð sveiflast mest. Minni hækkanir voru á hreinlætisvöru, sykur, súkkulaði og sælgæti og flokki ýmissa matvara sem samanstendur af fisk, olíum og feitmeti og þurrvörum og dósamat. Verð í þeim flokkum hækkaði að meðaltali á bilinu 6-7%.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK