Gætu þurft að búa lengur í foreldrahúsum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að með því að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85% sé mögulega verið að bjarga fólki frá því að koma inn á markaðinn á röngum tíma.

Breytingarnar voru kynntar í húsakynnum Seðlabanka Íslands í morgun. Með þeim þurfa fyrstu kaup­end­ur að geta lagt fram 15 pró­sent af kaup­verði fast­eign­ar í út­borg­un.

„Þetta eru allavega ákveðin skilaboð og fela kannski í sér að foreldrar þurfi  vera með börnin lengur heima eða eitthvað álíka. Við álítum að með þessu séum við í rauninni að reyna að vernda ungt fólk. Þó það hljómi kannski mögulega ekki þannig fyrir því,“ segir Ásgeir um lækkunina.

Hátt hlutfall fyrstu kaupenda gleðilegt

„Núna eru mjög stór­ar kyn­slóðir af ungu fólki að koma inn á fast­eigna­markaðinn,“ seg­ir Ásgeir og bend­ir einnig á mikla eftirspurn eftir starfsfólki og því hafi verið auðveld­ara að kom­ast inn á vinnu­markaðinn núna held­ur en hefur verið í lang­an tíma.

Af þeim sökum sé það alls ekki óeðlilegt að allt þetta unga fólk vilji eignast húsnæði. Þá bæt­ir hann við að það sé mjög gleðilegt að hlut­fall fyrstu kaup­enda hafi eig­in­lega aldrei verið hærra en árin 2020-2021 eftir að vext­ir voru lækkaðir vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. 30-40% þeirra sem keyptu sér eign­ir voru þá fyrstu kaup­end­ur.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika gera grein …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika gera grein fyrir yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem mér finnst líka gleðilegt er að þetta unga fólk kom inn án þess að taka verðtryggð lán. Þessi húsnæðiskaup hafa í sjálfu sér verið mjög vel heppnuð að mörgu leyti,“ segir Ásgeir og bætir við:

„Þessi verðbólgu­skell­ur sem við höf­um séð núna hef­ur ekki lent á þess­um fyrstu kaup­end­um af fullum þunga, þar sem nafnvextir hafa ekki fylgt verðbólgu og hækkandi fasteignaverð hefur skapað nýtt eigið fé hjá þessum hóp. Þannig að þegar við fór­um að herða regl­ur um veðsetn­ingu síðasta sumar, þar sem há­marks­veðsetn­ing var færð úr 85% í 80%, þá ákváðum við að undanskilja fyrstu kaup­end­ur, því við vild­um halda leiðinni op­inni fyr­ir ungt fólk inn á markaðinn. Núna höf­um við hins vegar áhyggj­ur af því, í ljósi mik­illa hækk­ana á fast­eigna­markaði að undanförnu, að það sé óheppi­legt að fólk komi inn á markaðinn með allt of mikla skuld­setn­ing­u.“

Hann segist þó halda að vísu að enginn lántakandi auglýsi 90% lán og að bankanir séu ekki endilega ginnkeyptir fyrir slíku.

Leiguverð geti hækkað

Aðspurður segir Ásgeir að þessar aðgerðir gætu þýtt að færri fyrstu kaupendur komist inn á markaðinn og sömuleiðis að leiguverðið hækki.

Það verður þá erfiðara að kaupa og dýrara að leigja?

„Það er alveg rétt en það má hins vegar spyrja á móti. Hvort er betra að borga hátt fyrir leigu í skamman tíma eða að kaupa eign á allt of háu verði?“

Þá bendir Ásgeir á að þegar vextir voru lækkaðir á sínum tíma, hafi leiguverðið lækkað. Það hafi ekki hækkað í takt við verðbólgu á síðustu 2-3 árum. „En það er alveg viðbúið að ef við þrengjum að aðgengi að lánsfé, sem við erum að gera núna, þá verður fólk að leigja. Af því vandinn á húsnæðismarkaði er skortur á framboði.“

Hefur ekki verið byggt fyrir ungt fólk

Ásgeir segir þetta að nokkru leyti vera skort á forsjá í skipulagsmálum. „Það hef­ur bara ekki verið byggt fyrir þessar stóru kynslóðir sem nú eru að koma inn á markaðinn. Við í Seðlabankanum get­um ekki leyst það mál,“ seg­ir hann.

Þá segir Ásgeir að mögulega verði hægt að draga lækkun á hámarki veðsetningarhlutfalls til baka ef vel tekst til að leysa úr skorti á húsnæði.

„Við höf­um al­veg nóg land til að byggja og skortur á framboði ætti því ekki vera vandi til framtíðar,“ seg­ir Ásgeir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK