Langisjór kaupir Freyju sælgætisgerð

Ævar Guðmundsson, stjórnarformaður Freyju.
Ævar Guðmundsson, stjórnarformaður Freyju. mbl.is/RAX

Eignarhaldsfélagið Langisjór ehf. hefur undirritað kaupsamning um kaup á félaginu K-102 ehf., sem á dótturfélagið Freyju, sem rekur samnefnda sælgætisgerð í Kópavogi. Þá hefur Langisjór einnig keypt allar fasteignir sem tengjast rekstrinum.

Freyja er fjölskyldufyrirtæki í eigu Ævars Guðmundssonar og fjölskyldu, en það rekur sögu sína aftur til ársins 1918. Meðal þeirra vörutegunda sem Freyja framleiðir eru Freyju Draumur, Rís, Djúpur, Möndlur, Staur, Hrís og Freyju rjómakaramellur.

Í tilkynningu vegna kaupanna er haft eftir Ævari, sem jafnframt er stjórnarformaður félagsins, að þetta sé góður tími til að selja fyrirtækið. „Eftir yfir 40 ára uppbyggingu okkar fjölskyldunnar á Freyju er fyrirtækið komið á mjög góðan stað en jafnframt með gríðarlega mörg ónýtt tækifæri í augsýn. Sérstaklega í vöruþróun og stöðugum vexti í útflutningi eftir 15 ára vinnu við að byggja upp viðskiptatengsl. Því finnst mér þetta góður tími til að hefja nýjan kafla í lífinu og koma fyrirtækinu í hendur á traustum eigendum. Mér er umhugað um fjölskyldugildi og að koma vel fram við starfsfólkið mitt og þess vegna líður mér mjög vel með að setja Freyju í hendur fjölskyldufyrirtækisins Langasjávar sem ég veit að hefur líðan starfsfólksins í forgrunni.“

Langisjór er móðurfélag fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum og sinnir einnig útleigu og uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar ehf. eru Alma íbúðafélag hf., Brimgarðar ehf., Mata hf., Matfugl ehf., Salathúsið ehf. og Síld og fiskur ehf. Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.

Haft er eftir Guðnýju Eddu Gísladóttur, stjórnarformanni Langasjávar, að byggja eigi á góðum rekstri undanfarinna ára, en félagið hefur m.a. staðið í útflutningi undanfarin 15 ár.

Hjá Freyju starfa rúmlega 50 starfsmenn, en starfsemin er á tveimur stöðum á Kársnesi í Kópavogi. Annars vegar í verksmiðju félagsins við Kársnesbraut og hins vegar á skrifstofum og lager í Vesturvör. Þá er félagið með starfsstöð á Akureyri.

Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með söluferli K-102 ehf. og ráðgjafi seljenda. BBA//FJELDCO var ráðgjafi kaupenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK