„Tímarnir breytast og leigubílarnir með“

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Hopp leigubílar, og Eyþór Máni …
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Hopp leigubílar, og Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóra Hopp. Ljósmynd/Aðsend

Rafskútu- og deilibílaleigan Hopp stofnaði í dag leigubílaþjónustu og hyggst á næstunni bjóða upp á að fólk geti pantað sér leigubíla í gegnum smáforrit fyrirtækisins. Þetta er gert vegna breytinga á lögum um leigubílaþjónustu sem tóku gildi í dag.

Eins og áður hefur verið greint frá hefur stöðvarskylda verið afnumin en það gerir leigubílstjórum kleyft að keyra fyrir fleiri en eina stöð. Margir leigubílstjórar lýstu yfir áhyggjum vegna breytinganna og mögulegra tilkomu fyrirtækja á borð við Uber og mótmæltu leigubílstjórar þessu með verkfalli á síðasta ári.

15% ódýrari

Hopp greinir frá nýjunginni í tilkynningu en Eyþór Máni Steinarsson, einn af eigendum Hopp, staðfestir í samtali við mbl.is að ekki sé um aprílgabb að ræða. Þetta sé jákvæð þróun fyrir bæði neytendur og leigubílstjóra. 

Tímarnir breytast og leigubílarnir með. Það er hægt að lækka verðið á leigubílamarkaðnum og við miðum við að vera fimmtán prósentum ódýrari en hjá almennum farveitum.

Spurður hvort að leigubílstjórar þurfi að hafa áhyggjur vegna breytinga á lögunum og komu þjónustu Hopp svarar Eyþór því neitandi.

„Það er hávær minnihluti sem hefur áhyggjur af þessum breytingum. Við erum bara að taka við leigubílstjórum sem eru löggildir og skráðir. Við myndum að sjálfsögðu vilja sjá rýmkanir þar líka. Það stemmir ekki alveg við tíðarandann hve flókið það er að verða leigubílstjóri.“

Hægt að taka leigubíl í samfloti

Boðið verður upp á að fólk geti farið í samfloti með öðru fólki fyrir lægra verð í nýju leigubílaþjónustunni en leigubílarnir voru til sýnis á Austurvelli í dag, á milli klukkan 11 og 12. 

„Þetta er næsta skref í byltingunni gegn einkabílnum. Besti bíllinn er enginn bíll en sá næstbesti er sá sem þú deilir með öðrum og við viljum gera fólki auðvelt fyrir að deila bílum, bæði sem það keyrir sjálft og sem aðrir keyra.

Við teljum líka að margir starfandi leigubílstjórar væru til í að vinna fyrir fleiri en eina stöð og muni taka því fegins hendi að fá fleiri ferðir og gegnsærri leið við úthlutun þeirra,“ er haft eftir Eyþóri Mána Steinarssyni, framkvæmdastjóra Hopp.

Þjónustan væntanleg í vor

Eyþór segir einn helsta kostinn við þjónustu Hopp vera nýrri og betri hugbúnaður sem að hans mati mun henta neytendum jafnt sem leigubílstjórum. Hann bendir á að neytendur greiði fyrir farið fyrirfram sem stuðli að öryggi leigubílstjóra og að í forritinu verði notað við stjörnukerfi þar sem hægt verður að gefa leigubílstjóra og farþega stjörnur fyrir ferðina. Er þá hægt að hætta við ferðina áður en hún hefst í smáforritinu. 

„Það er ákveðin ímynd um það hvað Uber er og sú ímynd er að hver sem er geti keyrt hvern sem er og að það sé níðst á ökumönnum. Uber taki 40 prósent af tekjunum í skiptum fyrir mjög mikla ábyrgð. Við erum íslenskt fyrirtæki á íslenskum grundvelli. Við viljum ekki hafa áhrif á lífsviðurværi leigubílstjóra,“ segir Eyþór spurður hver munurinn sé á Hopp og Uber.

Leigubílstjórar munu frá og með deginum í dag getað skráð sig hjá Hopp en þegar nægilega margir hafa skráð sig verður þjónustan opnuð fyrir almenning. Aðspurður segir Eyþór að þau hjá Hopp reikni með að opna þjónustuna í Hopp-appinu fyrir neytendur fljótlega í vor.

Hann segir að ef leigubílstjórar fylli út eyðublað á vefsíðu Hopp geti þeir nálgast frumútgáfu af smáforritinu og þannig skráð sig sem leigubílstjóra hjá Hopp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK