Óskar Icelandair til hamingju með rétta ákvörðun

„Ég get ekki sagt að þetta sé ógn. Mér finnst bara í fyrsta lagi gaman að sjá Icelandair taka rétta ákvörðun. Ég held að þetta sé hárrétt ákvörðun og það lá alveg fyrir að Boeing, eins og Icelandair hefur sagt, að það er gat í vörulínunni þeirra. Það er ekki vél sem kemur í staðinn fyrir 757-vélina og XLR vélin (Airbus A321) er mjög áhugaverð og býður upp á mjög mikla kosti. Þannig að ég hlýt að óska þeim til hamingju með að hafa tekið rétta ákvörðun.“

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, sem er gestur Dagmála. Hann segir heilbrigt að starfsfólk geti fært sig milli fyrirtækja hér á landi eins og annars staðar.

„Það er gríðarleg samkeppni um fólk í flugi og sérstaklega núna þegar öll flugfélög eru að rampa sig upp eftir Covid. Það er mikil eftirspurn eftir Airbus-þjálfuðum flugmönnum og áhöfnum, enda held ég að það séu fleiri og fleiri að átta sig á að það eru vélarnar sem henta ákveðnum tegundum flugfélaga best og Boeing hefur verið í ákveðnum vandræðum með sína vörulínu.“

En haldið þið að það verði talsverð hreyfing á milli fyrirtækjanna hvað starfsfólk varðar?

„Mér finnst það bara gott. Af því að ég er ekki innmúraður í þennan flugheim þá get ég ekki séð að þetta sé neitt öðruvísi en að reka tölvufyrirtæki þar sem það er samkeppni um forritara og mér finnst bara frábært að það sé hægt að geta boðið samkeppni í flugfargjöldum og mér finnst líka að það eigi að vera samkeppni um fólk. Og fólk getur þá bara valið sér þann vinnustað sem það vill vinna á og það er svo margt annað en laun sem kemur þar inn í. Það eru tækifæri og vinnufélagar og alls konar hlutir sem koma á þær vogarskálar og við þekkjum það öll sem einstaklingar að það er ekki einhver ein tala sem gerir þig annað hvort hamingjusaman eða óhamingjusaman. Og ef þetta rekur okkur í að gera áfram vel við okkar fólk og búa til flottan vinnustað, eins og við höfum mikinn metnað til að gera, þá er það bara af hinu góða og hið sama á við um Icelandair og við getum þá verið í samkeppni um það fólk og ég held að það sé af hinu góða.“

Viðtalið við Birgi má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK