Sigríður Margrét næsti framkvæmdastjóri SA

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, verður ráðin framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Sem kunnugt er sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, fráfarandi framkvæmdastjóri SA, starfi sínu lausu í lok mars sl., en sama dag var tilkynnt að hann hefði verið ráðinn forstjóri fasteignafélagsins Regins. Hann hefur nú þegar tekið við því starfi.

Sú sem var efst á lista við brotthvarf Halldórs Benjamíns var Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), en hún afþakkaði starfið samkvæmt heimildum blaðsins.

Nokkuð illa hefur gengið að finna einstaklings til verksins og hefur framkvæmdastjórn SA rætt við fjölmarga aðila vegna stöðunnar. Þau sem helst hafa verið inn í myndinni eru Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa og fv. varaformaður SA, Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fv. þingmaður, Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður efnahags- og samkeppnishæfnisviðs SA, Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Hanna Birna Kristjánsdóttir, fv. ráðherra, Kristín Edwald hæstaréttarlögmanns og Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu og fv. framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Þá ku einnig hafa verið rætt við Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, fv. formanns Viðskiptaráðs.

Ekki hefur ríkt einhugur um þessa einstaklinga innan framkvæmdastjórnar SA. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ríkir heldur ekki einhugur um ráðningu Sigríðar Margrétar en þó er niðurstaðan sú að ráða hana til verksins.

Uppfært: Eftir að fréttin var birt sendi SA frá sér tilkynningu þar sem ráðning Sigríðar var staðfest. Hún mun taka við stöðunni í september og láta þá af störfum sem forstjóri Lyfju. 

Sigríður er með B.Sc. gráðu í Rekstrarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og hefur einnig sótt stjórnendanámskeið hjá IESE Business School og Harvard.

„Öflugt atvinnulíf þýðir að lífskjör á Íslandi verða áfram með því besta sem þekkist í heiminum.  Það er heiður að vera í forsvari fyrir Samtök atvinnulífsins, vinna með atvinnurekendum og þeim öfluga hópi fólks sem starfar hjá samtökunum.  Verkefnin framundan eru brýn, ekki bara fyrir íslenskt atvinnulíf heldur samfélagið allt og ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum,“ er haft eftir Sigríði í tilkynningunni.

„Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er mikil, verðbólga er há, vextir eru háir og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir eftir 7 mánuði.  Aðilar vinnumarkaðarins hafa átt í ágætu samtali allt frá því að núgildandi skammtímasamningar voru undirritaðir. En það er verk að vinna.  Við náum ekki árangri nema með samstarfi, samtali og sameiginlegri sýn, stjórn Samtaka atvinnulífsins er sammála um það og við fögnum því að fá til liðs við okkur reynslumikinn stjórnanda,“ er haft eftir Eyjólfi Árna Ragnssyni, formanni Samtaka atvinnulífsins, í tilkynningunni.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mun sinna hlutverki framkvæmdastjóra SA þarf til Sigríður Margrét tekur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK