Spá verðbólgu niður fyrir 9% í lok júní

Hagfræðideild Landsbankans spáir lækkandi verðbólgu. Hagsjá, vefrit Hagfræðideildar bankans kom …
Hagfræðideild Landsbankans spáir lækkandi verðbólgu. Hagsjá, vefrit Hagfræðideildar bankans kom út í dag. Samsett mynd

Ársverðbólga lækkar úr 9,5% í 8,9% þegar Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs í lok þessa mánaðar, ef marka má spá hagfræðideildar Landsbankans.

Hagsjá, vefrit hagfræðideildar bankans, kom út í dag.

Spáð er hækkun á vísitölu neysluverðs um 0,87% milli mánaða í júní sem þýðir lækkun ársverðbólgu úr 9,5% í 8,9%. Matarkarfan, reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda hafa, samkvæmt spánni, mest áhrif til hækkunar vísitölunnar. Skýra þessir þrír liðir 75% af hækkun vísitölunnar milli mánaða. Lækkun á ársverðbólgu í júní samkvæmt spánni skýrist ekki síst af því að vísitalan hækkaði mikið í júní í fyrra og sú tala dettur út úr ársverðbólgunni þegar júnítalan verður birt.

Bankinn býst við að verðbólga lækki áfram niður í 8,0% í júlí, en haldist síðan rétt yfir 8% í ágúst og september.

Matarkarfan hækkar áfram sem og flugfargjöld

Samkvæmt verðathugun bankans á matvöru í júní hefur verð á flestum liðum matarkörfunnar hækkað lítillega milli mánaða. Spáir bankinn 0,8% hækkun á matarkörfunni og að áhrif á heildarvísitöluna verði 0,12 prósentustig til hækkunar. Gangi spáin eftir verður hækkunin sú sama og í síðasta mánuði.

Það sem af er ári hafa flugmiðar til útlanda verið rúmlega 20% dýrari en á sama tíma í fyrra, enda eftirspurn eftir flugi nokkuð meiri, sem sést meðal annars á góðri sætanýtingu flugfélaganna. 

Bankinn gerir ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram og að flugfargjöld til útlanda verði hærri í sumar en í fyrra. Þau lækkuðu um 7% milli mánaða í maí, enda lækka þau gjarnan milli apríl og maí áður en þau hækka aftur í júní. Bankinn gerir ráð fyrir að flugfargjöld hækki um 15,6% milli mánaða í júní en hækki aftur í júlí þegar eftirspurnin er sem mest. Fargjöld muni þá lækki á ný í ágúst og september þegar eftirspurnin fer að dragast saman.

Eldsneytisverð lækkar sem og reiknuð húsaleiga

Verðkönnun bankans bendir aftur til þess að verð á bensíni og díselolíu lækki um 0,12% milli mánaða í júní. Ef spá bankans gengur eftir verður júní fimmti mánuðurinn í röð þar sem bensínverð lækkar milli mánaða og verður bensínverð þá 4,8% lægra í júní en það var í janúar. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað nokkuð auk þess sem krónan hefur styrkst á móti bandaríkjadal síðan um áramótin.

Í síðasta mánuði hækkaði kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði um 1,3%, þar sem hlutur íbúðaverðs var 0,6 prósentustig og hlutur vaxtahækkana 0,7 prósentustig. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að reiknuð húsaleiga hækki um 1,1% á milli mánaða í júní og að áhrif íbúðaverðs verði 0,4% og áhrif vaxtahækkana 0,7%. Áhrifin á heildarvísitöluna verða þá 0,21 prósentustig til hækkunar.

Rétt 8% verðbólga næstu mánuði

Spá bankans til næstu mánaða gerir ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,36% milli mánaða í júlí, 0,40% í ágúst og 0,12% í september. Gangi spáin eftir mun verðbólga hjaðna niður í 8,0% í júlí, aukast lítillega aftur í 8,1% í ágúst og í 8,2% í september.

Í júní og júlí í fyrra hækkaði vísitalan töluvert mikið á milli mánaða og þess vegna spáir bankinn því að ársverbólgan lækki í júní og júlí þrátt fyrir að vísitalan hækki. Vísitalan hækkaði mun minna á milli mánaða í ágúst og september í fyrra og því spáum við því að ársverðbólgan aukist lítillega í ágúst og september í ár, þótt verðbólguþrýstingurinn verði ekki meiri en í júní og júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK