Reitir og Eik hefja viðræður um samruna

Stjórnir Reita fasteignafélags hf. og Eikar fasteignafélags hf. hefja viðræður …
Stjórnir Reita fasteignafélags hf. og Eikar fasteignafélags hf. hefja viðræður um mögulegan samruna félaganna. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórnir Reita fasteignafélags hf. og Eikar fasteignafélags hf. hafa ákveðið að hefja viðræður um mögulegan samruna félaganna. Áður hafði stjórn Regins ákveðið að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar. Stærsti hluthafi Eikar, Brimgarðar ehf., lögðust hins vegar gegn yfirtökutilboðinu, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í síðustu viku.

Í tilkynningu frá félögunum til Kauphallarinnar kemur fram að á fundi sem haldinn var í dag hafi verið samþykkt að ganga til viðræðna um mögulega sameiningu félaganna, en ráðinn hefur verið ráðgjafi til að vinna að úttektum og áætlunum þar um.

Segir þar jafnframt að innan beggja félaga hafi á liðnum misserum verið litið til þessa möguleika og því verið velt upp að í honum gætu falist tækifæri til umbreytinga og meiri samhæfingar en nú er. 

Vísað er til þess að ákvörðun Brimgarðs hafi valdið því að leitað var annarra leiða en yfirtöku. „Nýlegir atburðir stuðluðu að því að stjórn Eikar kannaði hvort grundvöllur væri fyrir viðræðum við stjórn Reita um mögulegan samruna sem væri hluthöfum hagfelldari en fyrirhugað yfirtökutilboð. Í ljósi almenns vilja hluthafa beggja félaga að ná fram aukinni rekstrarhagkvæmni og að lokum í ljósi þess að ekki virðist nægjanlegur stuðningur við aðrar hugmyndir að stærri sameiningu á fasteignamarkaði varð niðurstaðan sú að taka upp formlegar viðræður milli stjórna félaganna.“

Til þess fallið að auka arðsemi

„Við blasir að sameining er til þess fallin að bæta rekstrarárangur og auka arðsemi, svo sameinað félag geti verið skýr valkostur þeirra sem vilja njóta reglulegra arðgreiðslna af fjárfestingum sínum.  Þá halda bæði félögin á umtalsverðum þróunareignum sem eru á mismunandi stigum og henta til mismunandi nota, m.a. til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Ljóst þykir að skarpari áhersla og skýrari umgjörð um uppbyggingu og nýtingu þeirra og meira gagnsæi hvað varðar áhættur, tækifæri og framvindu, sé til þess fallin að mæta væntingum fjárfesta og lánveitenda um aukið gagnsæi,“ segir í tilkynningunni.

Loks telja stjórnir félaganna að stærra, sérhæfðara og arðsamara félag sé líklegt til að eiga betri og fjölbreyttari kosti um fjármögnun og höfða til breiðari hóps fjárfesta, innlendra sem erlend.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK