Tíföldun skili tugum milljarða

Ljósleiðari í jörðu.
Ljósleiðari í jörðu.

Tíföldun gagnahraða, eða úr einum gígabita á sekúndu upp í 10, sem Míla tilkynnti um í ágúst að fyrirtækið ætlaði að bjóða upp á til heimila, mun að öllum líkindum hafa mikil áhrif á efnahagslífið að mati Haraldar Jóns Hannessonar og Magnúsar Árna Skúlasonar hjá ráðgjafarfyrirtækinu Reykjavík Economics. Tala þeir um tugi milljarða króna á ári sem skili sér í þjóðarbúið.

Úr sveitaraflínu

Í grein í Morgunblaðinu í dag segja þeir að bera megi tíföldun á gagnahraða saman við að land fari úr sveitaraflínu í stærra flutningskerfi raforku. Tækifærin sem þar leynist geti verið gríðarleg. „Í náinni framtíð má gera ráð fyrir allt að 20 nettengdum raftækjum á hvert þriggja manna heimili, frá tölvum til nettengdra ísskápa sem brátt geta því miður upplýst aðra heimilismeðlimi um magn nætursnarls. Fleiri nettengd tæki kalla á meiri flutningshraða gagna. Þá er ekki tekið tillit til þarfa fyrirtækja sem í æ ríkara mæli nýta skýjalausnir,“ segja þeir Haraldur og Magnús.

Haraldur Jón Hannesson.
Haraldur Jón Hannesson.

Ennfremur segja þeir að eftirspurn eftir hágæða flutningsneti gagna hafi vaxið. Í heimsfaraldrinum hafi netumferð aukist um 58% í OECD löndunum á einu ári (2019-2020). „Fyrirtæki og heimili hafa því í auknum mæli uppfært nettengingar vegna fjarvinnu eða náms heima við. Þetta endurspeglar vöxt stafræns hagkerfis. Sífellt fleiri forrit sem nýtt eru í leik og starfi krefjast aukinnar bandvíddar.“

Magnús Árni Skúlason.
Magnús Árni Skúlason. Kristófer Liljar

Um framlag netsins til hagvaxtar segja höfundar að rannsóknir hafi sýnt fram á að áhrif fjarskiptatækni á hagvöxt séu aðallega eftir þremur leiðum. Í fyrsta lagi auki það skilvirkni í rekstri. Í öðru lagi geri það fyrirtækjum og stofnunum kleift að nýta auðlindir sínar með skilvirkari hætti en ella og í þriðja lagi geti tæknin lækkað framleiðslukostnað, ekki síst samskiptakostnað (Vu, 2011).

Þeir segja að fjölmargar rannsóknir hafi bent á mikilvægi góðra tenginga við internetið og talið sé að 10% aukning í notkun netsins geti aukið verga landsframleiðslu um allt að 0,25-1,5% á ári.

Aukin framleiðni

Höfundar vísa einnig rannsókna sem benda til þess að í OECD löndunum hafi tilkoma breiðbandsins/ljósleiðara leitt til mikils efnahagslegs ávinnings. „Almennt séð hefur aukið netaðgengi, meiri hraði ásamt tækninýjungum mikil áhrif. Nefna má sem dæmi aukna framleiðni vinnuafls. Þá hefur það verið metið að þegar gagnahraði tvöfaldist þá vaxi verg landsframleiðsla um 0,3% á ári umfram það sem annars hefði verið. Einnig var efnahagslegur ávinningur ljósleiðaravæðingar mikill samkvæmt rannsókn Bohlin & Rohman (2012). Þá er því spáð að innleiðing gervigreindar muni líklega auka landsframleiðslu um 1,2% ári til 2030 (McKinsey).“

Um áhrifin fyrir Ísland segja þeir að ef gert er ráð fyrir að vöxtur landsframleiðslu vegna hraðaaukningar internetsins hafi verið sami hér á landi og í OECD ríkjunum megi ætla að tíföldun hraða nettenginga geti skilað milljörðum jafnvel tugum milljarða á ári í þjóðarbúið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK