Traust mikilvægast í viðskiptum

Fjölmenni mætti á fund viðskiptaklúbbsins Kompanís á Grand hóteli á …
Fjölmenni mætti á fund viðskiptaklúbbsins Kompanís á Grand hóteli á síðasta ári. Aðsókn hefur ávallt verið góð. Eggert Jóhannesson

Kompaní, viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is, mun halda markaðsráðstefnu á Grand hóteli í Sigtúni dagana 3.-5. október næstkomandi.

Silja Jóhannesdóttir, sölustjóri markaðsdeildar Árvakurs, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að Kompaní hafi haldið markaðsráðstefnur sem þessa árlega síðustu tólf ár. Þangað er völdum fyrirtækjum boðið og aðsókn hefur ávallt verið mjög góð, að hennar sögn.

Ástríðufullur markaðsmaður

„Í ár ætlum við að vera með tvo fyrirlesara. Sá fyrri er Riad Zouheir, aðalráðgjafi hjá breska markaðsfyrirtækinu Amplify My Sales ltd. Hann er ástríðufullur markaðsmaður og hefur haldið fyrirlestra á yfir þrjú hundruð ráðstefnum og vinnustofum um allan heim. Fyrirlestur hans mun fjalla um hvernig fyrirtæki geta aukið vörumerkjavitund sína með markvissum hætti. Hann leggur mikla áherslu á að traust sé það allra mikilvægasta í viðskiptum,“ segir Silja.

Silja Jóhannesdóttir.
Silja Jóhannesdóttir.

Hún segist hafa séð það sjálf í sínu starfi hjá Árvakri að þeir sem standi við gefin loforð í viðskiptum fari fram úr væntingum viðskiptavinarins og standi uppi sem sigurvegarar.

Seinni fyrirlesarinn á markaðsráðstefnunni verður Steinn Örvar Bjarnarson, sérfræðingur hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Advania. „Hann mun fræða okkur um gervigreind – hvernig við getum nýtt hana sem tæki til að gera starf okkar markvissara og ná árangri. Einnig mun hann koma inn á það hvað ber helst að varast í þessum efnum.“

Riad Zouheir.
Riad Zouheir. Eggert Jóhannesson

Silja kveðst finna fyrir miklum áhuga á þessu málefni núna.

„Við höfum verið að kynna okkur allt það helsta sem snýr að gervigreind. Hún er sniðug á sumum sviðum en hættuleg á öðrum og því er betra að kynna sér þessa nýjung mjög vel áður en við förum að nýta okkur hana. Fyrir okkur sem vinnum við markaðsmál þá á þetta eftir að auðvelda okkur vinnuna á mörgum sviðum. Það er margt sem ber að varast og Steinn Örvar mun koma inn á það,“ útskýrir Silja.

Mikilvægir fjölmiðlar

Hún segir ljóst að hefðbundnir ritstýrðir fréttafjölmiðlar verði mikilvægari en nokkru sinni fyrr þegar fram líða stundir vegna mikillar upplýsingaóreiðu sem fylgi nýrri tækni.

„Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort þetta sé ógn fyrir hefðbundna fréttafjölmiðla eins og okkar nú þegar það er hægt að láta gervigreind skrifa heilu doðrantana á nokkrum sekúndum.“

Steinn Örvar Bjarnarson.
Steinn Örvar Bjarnarson.

Silja segist þakklát fyrir meðlimi Kompanís.

„Við erum rosalega þakklát fyrir þau fyrirtæki sem eru í Kompaní-klúbbnum okkar en við höldum fjóra morgunverðarfundi á ári. Þar gefst fyrirtækjum færi á að koma í morgunmat til okkar upp í Hádegismóa, hlýða á flotta fyrirlesara og styrkja tengslanetið sitt með því að hitta annað fólk sem er að takast á við svipaðar áskoranir í sínum rekstri.“

Silja kveðst að lokum full tilhlökkunar fyrir markaðsráðstefnunni. „Ég er sannfærð um að fólk eigi eftir að læra margt sniðugt sem það getur nýtt sér í sínum rekstri.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK