Festi og Olís móta saman stefnu þriggja innviðafélaga

Olís og Festi eiga saman hlut í Oliudreifingu og öðrum …
Olís og Festi eiga saman hlut í Oliudreifingu og öðrum félögum sem sjá um birgðarhald og dreifingu á eldsneyti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Festi og Olís, dótturfélag Haga, hafa sameiginlega ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka til ráðgjafar um stefnu og framtíðarmöguleika hvað varðar eignarhluti félaganna í Olíudreifingu ehf., Eldsneytisafgreiðslunni á Keflavíkurflugvelli ehf. (EAK) og EBK ehf.

Í tilkynningu sem bæði Festi og Hagar sendu á Kauphöllina í morgun kemur fram að stefnumarkandi vinna sé nú að hefjast varðandi félögin. Allt eru þetta innviðafélög sem halda utan um birgðahald og dreifingu á eldsneyti á Íslandi. Meginstarfsemi Olíudreifingar er birgðahald og dreifing á eldsneyti um land allt en meginstarfsemi EAK og EBK er birgðahald og dreifing á flugvélaeldsneyti á Keflavíkurflugvelli.

Festi á 60% hlut í Olíudreifingu til móts við Olís sem á 40% hlut í félaginu. Þá eiga bæði félögin þriðjungshlut í EAK og fjórðungshlut í EBK.

Fram kemur í tilkynningunni að til stendur að kanna möguleika á breyttu eignarhaldi, eftir atvikum í samvinnu við aðra hluthafa EAK og EBK, með það að markmiði að hámarka verðmæti hluthafa, einfalda eignarhaldið og um leið tryggja hagfellda framtíðarþróun innviða þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK