Tekjur af tekjuskatti lögaðila aukast um 41,4%

Álagning allra skatta eykst frá fyrra ári að undanskildu jöfnunargjaldi …
Álagning allra skatta eykst frá fyrra ári að undanskildu jöfnunargjaldi alþjónustu. mbl.is/Ófeigur

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2022.

Í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að álagning allra skatta aukist frá fyrra ári að undanskildu jöfnunargjaldi alþjónustu, sem leggst á fjarskiptafyrirtæki og vegi lítið, en álögð gjöld nema samtals 282,9 mö.kr. og aukast um 64,6 ma.kr. á milli ára.

Á vefnum segir að stærstu einstöku breytinguna sé að finna í tekjuskatti lögaðila en þar aukast tekjur ríkissjóðs um 41,6 ma.kr., eða 41,4%, á milli ára en álagður tekjuskattur nemur 141,8 mö.kr. Gjaldendum fjölgar um 598, eða 3,2% og sem fyrri ár eru það fyrirtæki í fjármála- og vátryggingastarfsemi sem greiða hæst hlutfall heildartekjuskatts samkvæmt tilkynningunni. „Stærsta hlutfallslega breytingin varð á sérstökum fjársýsluskatti sem ríflega tvöfaldaðist milli ára en þar sem hann er viðbótartekjuskattur á tekjuskattstofn umfram 1 ma.kr. er sterk fylgni milli hans og hefðbundins tekjuskatts,“ segir í tilkynningunni.

Tryggingagjald hækkar

Tryggingagjald hækkar um 19,7 ma.kr. frá fyrra ári, eða 19,3%, enda gekk tímabundin lækkun gjaldsins í eitt ár til baka árið 2022. Bætast áhrif þess við töluverðan vöxt launastofns og verður útkoman því umtalsverð aukning álagningar milli ára. Í tilkynningunni segir að rétt sé að hafa í huga að hér er um að ræða svokallaða frumálagningu og getur álagingin tekið breytingum við endanlegt uppgjör.

Samkvæmt tilkynningunni fjölgar gjaldskyldum félögum um 1.864, eða 3,7%, milli ára. Þau eru nú 52.059 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Félögum sem greiða tekjuskatt fjölgar um 598, eða 3,2% milli ára en eftir að hafa fækkað á árunum 2017 til ársins 2021 hefur þeim nú fjölgað tvö ár í röð og eru orðin fleiri en þegar mest var árið 2016.

Skilum framtala fjölgaði

Þá kemur fram að síðustu ár hafi sú góða þróun orðið að skilum framtala hafi fjölgað hlutfallslega ár frá ári. „Bætt skil framtala eru til þess fallin að fækka kærum og endurákvörðunum og skapast því meiri vissa um að álagning opinberra gjalda á lögaðila skili sér í ríkissjóð. Hlutfall framtala sem skilað er áður en að álagning fer fram fór fyrst yfir 80% árið 2018 en var í ár 87%, prósentustigi meira en síðastliðin þrjú ár þegar hlutfallið var 86%,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK