Segir að verðið gæti verið 1.700 krónur

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's, segir aldrei gaman að hækka verð.
Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's, segir aldrei gaman að hækka verð. Ljósmynd/Domino's

Domino's á Íslandi hefur hækkað verð á þriðjudagstilboði sínu úr 1.200 krónum í 1.300 krónur. Til margra ára hreyfðist ekki við matseðilsverði hjá Domino's og er þriðjudagstilboð ágætis dæmi um það enda stóð verðið í stað í um tíu ár. Nú hefur tilboðið hins vegar hækkað í verði í þrígang síðan árið 2021. 

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's á Íslandi, segir ástæðu hækkunarinnar einfalda. Hann kveðst átta sig á því að fólk festi sig á verðpunktum, en segir að verð hjá Domino's, eins og öðrum, verði að hreyfast í takt við þróun á kostnaði og öðru slíku.

„Við erum búin að búa við verðbólgu umhverfi og ýmislegt fleira sem hefur dunið á almenningi rétt eins og fyrirtækjum síðustu ár og þetta er einfaldlega afleiðing af því,“ segir Magnús.

Reyna að halda hækkunum í lágmarki

Magnús segir fátt í íslensku samfélagi hafa haldist jafn stöðugt í verði á þrettán árum. Sem dæmi nefnir hann að ef verð á þriðjudagstilboði yrði uppreiknað miðað við neysluvísitölu frá því að tilboðið var kynnt á sínum tíma, þá væri söluverðið í kringum 1.700 krónur. 

Aðspurður segir hann allar breytingar á verði hafa áhrif og að Domino's hafi fundið fyrir því, enda hafi fyrirtækið þurft að hreyfa óvenju mikið við verði síðustu ár. Hann segir fólk samt sem áður sækjast meira í Domino's og telur það vera vegna þess að fyrirtækið reynir að halda hækkunum í lágmarki, „ég tel að fólk sjái það.“

„Ef við gerum samanburð á okkur og öðrum tilbúnum mat, hvort sem það er skyndibiti eða annað. Jafnvel bara á því að kaupa einfalda máltíð úti í búð að þá komum við oft og tíðum afskaplega vel út úr þeim samanburði,“ segir hann. 

Magnús segir aldrei gaman að hækka verð en að eftir sem áður standi Domino's vel að vígi og geti verið nokkuð bratt með það sem það býður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK