Ekki auðvelt að koma 700 milljörðum á markað

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabankinn hefur lagt mat á áhrif frumvarps fjármálaráðherra um úrvinnslu og uppgjör ÍL-sjóðs, en sú umsögn hefur þó ekki enn verið gerð opinber, en það stendur til. Ljóst er að það að koma 600-700 milljarða eignum, sem teljast illseljanlegar, getur haft töluverð áhrif á fjármálamarkað og fjármálastöðugleika hér á landi.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á kynningarfundi eftir yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar í morgun.

„Það er alveg ljóst að það að ætla að vinda þessa stofnun niður, það er að ætla að gera hana upp, það hefur náttúrulega töluverð áhrif á fjármálamarkaði. Bara það að eignir sjóðsins séu óseljanlegar og það ef á að koma þeim í verð og greiða þær út, þá hefur það töluverð áhrif á markaði og ekki sama hvernig það er gert,“ sagði Ásgeir á fundinum og vísaði til þess að um 600-700 milljarða illseljanlegar eignir væri að ræða.

Gunnar ítrekaði að bankinn hefði lagt mat á áhrif af frumvarpinu á fjármálastöðugleika, þó það hafi ekki enn verið opinberað. Hann tók hins vegar undir áhyggjur Ásgeirs. „Að koma því í verð á grunnum íslenskum fjármálamarkaði er ekki auðvelt verk og ef ætti að gera það með hraði hefði það klárlega áhrif á fjármálastöðugleika.“

Bætti Gunnar því við að Seðlabankinn hefði samt ekki skoðun á því hvort farin yrði sú leið sem fjármálaráðherra hefur lagt til eða önnur, það væri umfjöllunarefni stjórnmála. Hins vegar verði að huga vel að því hvernig uppgjörið fari fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK