Lætur af framkvæmdastjórastöðu Kviku

Gunnar Sigurðsson lætur af framkvæmdastjórastöðu Kviku Securities Ltd. í London.
Gunnar Sigurðsson lætur af framkvæmdastjórastöðu Kviku Securities Ltd. í London.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku Securities Ltd. í London (KSL), hefur óskað eftir að láta af framkvæmdastjórastöðu sinni hjá fyrirtækinu sem er dótturfélag Kviku banka hf. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Samhliða starfslokum sínum mun Gunnar hætta í framkvæmdastjórn samstæðu Kviku og stöðugildum í framkvæmdastjórninni verður þá um leið fækkað um eitt.

Enn fremur er greint frá því í tilkynningunni að stjórn KSL hafi ráðið Richard Beenstock sem nýjan framkvæmdastjóra en Gunnar hefur leitt uppbyggingu starfsemi Kviku í Bretlandi allar götur frá stofnun árið 2017. Mun hann áfram sinna ákveðnum verkefnum fyrir KSL og vera félaginu innan handar við framkvæmdastjóraskiptin.

Þakkar frábært samstarf

Beenstock, sem útskrifaðist frá University of Birmingham og hefur öðlast réttindi sem löggiltur endurskoðandi, hefur yfir 20 ára starfsreynslu af breskum fjármálamörkuðum við útlána- og fjárfestingastarfsemi. Árið 2013 stofnaði hann, ásamt fleirum, Ortus Secured Finance, fasteignalánafélag sem síðar var keypt af KSL, og var forstjóri þess þar til í september 2023.

„Ég vil nota tækifærið og þakka Gunnari Sigurðssyni fyrir frábært samstarf í gegnum árin,“ er haft eftir Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku banka, í tilkynningunni. „Gunnar gekk til liðs við Kviku árið 2015 og hefur verið framkvæmdastjóri KSL frá upphafi starfseminnar í byrjun árs 2017. Þá var hann eini starfsmaður félagsins en undir hans forystu hefur átt sér stað mikil uppbygging í Bretlandi, í útlánastarfsemi, eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf. Í KSL og dótturfélögum starfa nú yfir 30 manns.“

Kveður Ármann það ánægjulegt að geta tilkynnt að Richard Beenstock taki við keflinu sem framkvæmdastjóri KSL og leiði áframhaldandi uppbyggingu félagsins. „Richard er Kviku að góðu kunnur. Hann er frábær stjórnandi og býr yfir umfangsmikilli reynslu og þekkingu til að vinna vel úr tækifærum okkar í Bretlandi,“ segir Ármann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK