Seðlabanki Íslands segir fjármálakerfið traust

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaskilyrði hafa versnað samhliða því sem hægt hefur á efnahagsumsvifum en skuldahlutfall bæði heimila og fyrirtækja er hóflegt, hvort heldur miðað er við tekjur eða eiginfjárstöðu. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Segir í yfirlýsingunni að þau skilyrði skapi svigrúm til að aðlaga greiðslubyrði húsnæðislána að greiðslugetu og þeim lánþegaskilyrðum sem nefndin hefur sett.

Yfirlýsingin var birt klukkan 8.30 í morgun en seðlabankastjóri mun gera grein fyrir yfirlýsingunni á blaðamannafundi klukkan 9.30. 

Sveiflujöfnunarauki að óbreyttu í 2,5%.

Engu að síður segir nefndin fjármálakerfið hér á landi traust og að eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka sé sterk. 

Þó dregið hafi úr vexti útlána sé geta þeirra góð til áframhaldandi miðlunar lánsfjár til heimila og fyrirtækja. Erlend markaðsfjármögnun bankanna sé í góðum farvegi og á áætlun.

„Vanskil eru lítil og hafa aukist óverulega þrátt fyrir aukna verðbólgu, hækkun vaxta og þyngri greiðslubyrði. Í ljósi þessa ákvað nefndin að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%.“

Styðja frumvarp um aukið rekstraröryggi

Segir nefndin lífeyrissjóði ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og leggur því áherslu á að lagaleg umgjörð um sjóðina og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra við miðlun fjármagns séu samanburðarhæfar við þær sem gerðar eru til annarra aðila á fjármálamarkaði.

Kemur einnig fram að nefndin styðji framgang frumvarps um aukið rekstraröryggi í greiðslumiðlun sem lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda.

„Mikilvægt er að huga heildstætt að viðnámsþrótti greiðslumiðlunar, koma sem fyrst á óháðri innlendri greiðslumiðlun, styrkja net- og rekstraröryggi fjármálafyrirtækja og treysta rekstrarsamfellu.“

Staðfesta mikilvægi þriggja banka

Fjármálastöðugleikanefnd hefur lokið árlegu endurmati á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum og eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis.

Staðfestir nefndin kerfislegt mikilvægi þriggja banka: Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, og hefur ákveðið að halda eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis óbreyttum í 2% á allar áhættuskuldbindingar.

„Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi svo að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK