Simmi Vill á tímamótum

Sigmar Vilhjálmsson og Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa.
Sigmar Vilhjálmsson og Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa. Ljósmynd/Aðsend

Sigmar Vilhjálmsson, einn af eigendum Minigarðsins mun færa sig um set um áramótin og taka við sem framkvæmdastjóri Eldum Gott ehf., nýju félagi sem er í meirihlutaeigu Samkaupa til móts við Sigmar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum.

Hlutverk Eldum Gott verður að þróa og breikka vörulínu Samkaupa með áherslu á tilbúna rétti, rétti sem hægt er að fullelda heima og á ferskvöru. Sérstök áhersla verður á vörur sem framleiddar eru undir eigin vörumerkjum Samkaupa sem eru sérframleidd fyrir Nettó, Kjörbúðina og Krambúðina. Gæðaeftirlit, nýsköpun og þróun á tilbúnum réttum verður meginverkefni næstu mánaða ásamt því að þróa frekar veitingasölu í verslunum Samkaupa víðsvegar um landið.

„Þetta eru spennandi tímar fyrir mig persónulega. Tækifærin eru gríðarleg innan Samkaupa, hlutdeild þeirra á markaði og staðsetningar verslana opna á mjög marga spennandi kosti. Innan Samkaupa er mikil reynsla og þekking sem skiptir höfuðmáli þegar kemur að því að færa veitingarekstur nær innkaupakörfunni í matvöruverslunum. Það er margt spennandi sem á eftir að líta dagsins ljós á næstu misserum í verslunum Samkaupa um land allt,“ er haft eftir Sigmari í tilkynningunni. 

„Verslun og þjónusta almennt hefur mikið breyst á síðustu árum og krafa neytenda um að fá góðan mat sem fljótlegt og einfalt er að matreiða er mikil. Við höfum unnið með Sigmari síðustu árin og samstarfið hefur gengið framar vonum. Þetta er því rökrétt næsta skref í okkar samstarfi. Nýsköpun og skynbragð á það hvernig vindar blása hverju sinni er lykilatriði í þessu verkefni og við erum sannfærð um að verkefnið sé í góðum höndum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK