Skattspor ferðaþjónustunnar 145 milljarðar

Íslensk stjórnvöld vinna nú að ferðamálastefnu til 2030 en á …
Íslensk stjórnvöld vinna nú að ferðamálastefnu til 2030 en á myndinni má sjá ferðamenn við Gullfoss. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heildarskattspor ferðaþjónustunnar á Íslandi er tæpir 145 milljarðar króna, samkvæmt víðri skilgreiningu, en er áætlað stærra ef tekið er mið af nýjum tölum frá Hagstofunni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu greiningarfyrirtækisins Reykjavík Economics sem unnin var fyrir Samtök ferðaþjónustunnar (SAF). Skýrslan fjallar um skattspor ferðaþjónustunnar og var kynnt á ráðstefnu SAF á Grand Hóteli í dag. Er þetta í fyrsta sinn sem tölur af þessu tagi eru teknar saman fyrir atvinnugreinina.

Nýjar tölur frá Hagstofunni voru birtar í gær og fram kemur í kynningu frá Reykjavík Economics að ef tekið sé mið af tölum Hagstofunnar sé heildarskattspor ferðaþjónustunnar umtalsvert stærra, eða um 155 milljarðar króna.

Í skýrslunni voru teknar saman upplýsingar frá fyrirtækjum í einkennandi greinum ferðaþjónustu, skv. skilgreiningu Hagstofu, en þau voru 4.346 í árslok 2021.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er þröngt skattspor ferðaþjónustunnar um 82 milljarðar króna en ef tekið er mið af nýjum tölum Hagstofunnar sé hægt að áætla að það sé 92 milljarðar króna. Nefna má að fjögur stórfyrirtæki í ferðaþjónustu hafa opinberað að skattspor þeirra sé yfir 42 milljarðar króna. Eitt þessara fyrirtækja, flugfélagið Atlanta, starfar utan landsteinanna en á íslensku leyfi.

Ef horft er til víðtækari áhrifa ferðaþjónustu eða þess sem kallað er í skýrslunni vítt skattspor þá er það um 145 milljarðar króna líkt og áður segir. Það er fengið með því að leggja við þrönga skattsportið útskatt virðisaukaskatts í einkennandi greinum ferðaþjónustu ásamt því að draga frá opinbera styrki til einkennandi greina ferðaþjónustunnar.

„Hlutdeild einkennandi greina ferðaþjónustunnar hefur farið vaxandi í VLF og umfang hennar því mikið. Þegar horft er á virðiskeðju ferðaþjónustunnar er ljóst að hún snertir fleiri þætti íslensks þjóðlífs en einungis einkennandi greinar ferðaþjónustunnar. Einnig er rétt að taka fram að neysla einkennandi greina ferðaþjónustunnar er einnig borin uppi af innlendum aðilum,“ segir í skýrslunni.

Skattspor Icelandair er um 25,5 milljarðar króna og vegur þyngst allra ferðaþjónustufyrirtækja. Þá kemur fram að launakostnaður fyrirtækja í einkennandi greinum ferðaþjónustu er áætlaður 205 milljarðar króna á árinu 2022. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í dag, 7. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK