Medagogic fær fjármögnun

Mynd úr sýndarveruleikabúnaði Medagogic.
Mynd úr sýndarveruleikabúnaði Medagogic.

Nýsköpunarfyrirtækið Medagogic fékk 20 milljóna króna fjármögnun frá Nýsköpunarsjóði vegna fjárfestingarátaks. Markmið fjárfestingaátaks sjóðsins er að stuðla að hraðari framþróun sprotafyrirtækja og hvetja til þátttöku englafjárfesta.

Tíu fyrirtæki fengu styrk í tengslum við átakið. Sjóðurinn auglýsti átakið sl. vor en 73 félög sóttu um fjárfestingu frá Nýsköpunarsjóði í átakinu.

Eftir valferli voru tíu félög valin úr hópi umsækjenda og mun Nýsköpunarsjóður fjárfesta í þeim samtals fyrir um 200 milljónir króna. Eitt af skilyrðum átaksins er að félögin tryggi sér a.m.k. sömu upphæð frá einkafjárfestum. Samanlagt stefnir fjárfesting Nýsköpunarsjóðs og einkafjárfesta í að verða nærri 600 m.kr. í þessum tíu félögum.

Fjármögnunin skipti miklu máli 

Birgir Þorgeirsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Medagogic, segir að fjármögnunin hafi skipt fyrirtækið miklu máli og muni nýtast vel við uppbyggingu fyrirtækisins.

„Fyrst er það auðvitað viðurkenningin og hvatningin sem við fáum frá Nýsköpunarsjóði, að halda áfram á okkar vegferð. Við höfum þegar lært mikið á þessu átaki, ásamt góðri og persónulegri ráðgjöf frá sjóðnum. Fjármagnið hjálpar svo auðvitað mikið og gerir okkur kleift að hreyfast hraðar,” segir Birgir.

Þróa sýndarveruleika

Medagogic er sprotafyrirtæki sem vinnur að þróun sýndarveruleikaumhverfis til að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk. Medagogic er í þróunarsamvinnu við neyðarmóttöku barna við Sahlgrenska spítalann í Gautaborg í Svíþjóð og Barnaspítala Hringsins.

Tölvuhermd þjálfun heilbrigðisstarfsfólk er hugsuð sem viðbót við núverandi hermikennslu heilbrigðisstarfsmanna. Hægt verður að upplifa bráða aðstæður bæði í sýndarveruleika og í gegnum vefspjall við neyðarteymi á staðnum. Leikanda er gert að stýra aðgerðum á vettvangi og eiga í samskiptum við annað heilbrigðisstarfsfólk í úrlausn sinni á tilfellinu.

Með slíkri tækni má auka aðgengi að þjálfun, bæta skilvirkni og á endanum fækka mistökum.
Birgir segir að hugmyndin hafi kviknað í Covid-faraldrinum þegar kallað hafi verið eftir nýjum lausnum í heilbrigðisgeiranum. Hann hafði starfað í hugbúnaðarþróun fyrir flugumferðarstjórn lengi og langaði í verðugt hliðarverkefni í faraldrinum sem væri tengt hans bakgrunni.

„Systir mín og meðstofnandi er barnalæknir í Svíþjóð, það var í okkar samtali sem hugmyndin kom upp hvort tölvuhermdar æfingar væri mögulegar og gagnlegar á heilbrigðissviði einsog hjá flugumferðarstjórum. Hvort tækni og kúltur úr flugumferðarstjórn gæti nýst heilbrigðisgeiranum þótti okkur áhugavert. Við fáum svo með okkur David, þriðja meðstofnanda sem hefur bakgrunn úr leikjaiðnaðinum," segir Birgir og bætir við að í kjölfarið hafi þau ákveðið að slá til og stofnað fyrirtækið.

Umhverfið til fyrirmyndar

Birgir segir að nýsköpunarumhverfið á Íslandi sé að mörgu leiti til fyrirmyndar. Styrkir Rannís séu hvetjandi og öllum aðgengilegir. Allir styrkþegar fái aðgang að teymi reynslumikilla leiðbeinanda og aðgengi að fræðslu í kjölfar styrkveitingar.

„Við erum enn í samtölum við mögulega englafjárfesta, bæði einstaklinga og fyrirtæki sem vilja taka þátt í þessu með okkur. Við erum því enn að safna liði og hvetjum alla áhugasama að hafa samband,” segir Birgir og bætir við að þetta sé búnaður sem nýtist bæði hér heima og erlendis.

Margt á döfinni 

„Varan getur nýst hér á landi en við sjáum sölur helst vera á erlenda spítala og heilbrigðisstofnanir. Þar teljum við þörfina vaxandi. Vinnumálastofnun Bandaríkjanna spáir því í nýlegri skýrslu að 40% allra nýrra starfa næstu 10 árin í Bandaríkjunum verði heilbrigðis- og ummönnunar störf. Það er fyrirséð að slík aukning krefst nýrra lausna í þjálfun sem og í klínísku starfi. Sýndarþjálfun er aðgengilegur og ódýr kostur samhliða hefðbundnum hópæfingum." segir Birgir og bætir við að margt sé á döfinni hjá fyrirtækinu.

„Við erum að vinna við frumgerð í samstarfi við aðila hjá Landspítala og Sahlgrenska. Höfum lært mikið af þeim tveimur notendaprófunum sem við höfum haldið hér á landi og í Svíþjóð og erum að vinna úr þeim breytingum sem við þurfum að gera. Við höldum áfram að einblína á þarfir barna lækninga og hjúkrunar en meðvituð um að á endanum viljum við styðja við fleiri svið innan heilbrigðisgeirans,” segir Birgir og bætir við að takmarkið sé að kynna lausnina formlega á stærstu sýningu innan heilbrigðis hermunar í Bandaríkjunum að ári liðnu.

„Við viljum setja ný viðmið í þróun á sýndarhermum fyrir heilbrigðisgeirann. Við byrjum innan barnalækninga og viljum leysa afmörkuð vandamál fyrst, en á endanum staðsetja okkur í fararbroddi þeirra sem framleiða þessar lausnir fyrir heilbrigðisstarfsfólk,”segir Birgir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK