Breytt skattmat raskaði jólaviðskiptum

Ríkisskattstjóri gerði bankakort skattskyld stuttu fyrir jól og fyrirtæki gáfu …
Ríkisskattstjóri gerði bankakort skattskyld stuttu fyrir jól og fyrirtæki gáfu starfsmönnum frekar inneignarkort í staðinn. Það raskaði samkeppni að mati FA þar sem öll fyrirtæki taka við bankakortum sem greiðslu. Sigtryggur Sigtryggsson

„Við teljum að hvorki Skatturinn né fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem staðfesti breytingarnar, hafi lagaheimildir til að skattleggja gjafakort með ólíkum hætti,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), í samtali við ViðskiptaMoggann.

Ríkisskattstjóri breytti sem kunnugt er skattmati í lok nóvember sl. með þeim hætti að ef atvinnurekendur gáfu starfsmönnum bankakort með peningainneign í jólagjöf varð að greiða skatt af inneigninni, en gjafakort einstakra verslana og verslunarmiðstöðva voru áfram undanþegin skattheimtu. Skattmatið lýtur að launþegum og segir til um hvað sé skattskylt og hvað ekki.

Fundu fyrir áhrifum

ViðskiptaMogginn hefur upplýsingar um að fyrirtæki hafa fundið fyrir áhrifum skattmatsbreytinganna í jólaversluninni, sem kemur helst fram í því að ólíkt fyrri árum hafi lítil viðskipti verið með bankakort hjá þeim. Verslunareigendur benda á að þegar inneignarkort bankanna voru gerð skattskyld var fyrirtækjum sem vildu gera vel við starfsfólkið sitt í jólagjöfum, skyndilega gert að hætta við að kaupa bankakort og kaupa þess í stað inneignarkort í verslunarkjarna eða einstaka verslunum.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. María Matthíasdóttir

Með því að gera breytinguna skömmu fyrir hátíðarnar telja þeir að ríkisskattstjóri hafi beint viðskiptum á ákveðna staði og hyglað verslunarmiðstöðvum og þeim sem selja inneignarkort, á kostnað fyrirtækja sem gera það ekki. Ólafur segir það deginum ljósara að breytingin á skattmatinu hafði veruleg samkeppnisleg áhrif og það séu vísbendingar og gögn sem sýni það að það hafi dregið almennt úr verslun með inneignarkortum frá bönkunum og verslun með inneignarkort frá verslunarkjörnum hafi stóraukist.

„Nákvæmlega það sem við sögðum að myndi gerast að það væri í raun verið að beina viðskiptum atvinnurekenda á ákveðna staði,“ útskýrir Ólafur. 

Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK