Lögðu stærstu stofu heims

Hans Orri Kristjánsson, Magnús Már Þorvarðarson og Daniel Axelsen hjá …
Hans Orri Kristjánsson, Magnús Már Þorvarðarson og Daniel Axelsen hjá SEN & SON í Dugguvogi. Kristinn Magnússon

Sjálfbærni og gervigreind eru mjög í deiglunni um þessar mundir en hvort tveggja kemur mikið við sögu frá degi til dags í starfi hönnunarstofunnar ungu SEN & SON í Dugguvogi 42 í Reykjavík.

Stofan vakti athygli á síðasta ári þegar hún lagði stærstu arkitektastofu í heimi, Henning Larsen, að velli í lokaðri hönnunarsamkeppni Klasa um 22 þúsund fermetra uppbyggingu Krossmýrartorgs á Borgarhöfða í Reykjavík. Má segja að þar hafi Davíð lagt Golíat, en fimm alþjóðlegar stofur öttu kappi í fyrstu umferð. Að lokum tókust SEN & SON og Henning Larsen á í lokaumferð.

„Við unnum verkefnið í samvinnu við norsku hönnunarstofuna Hille Melby og enduðum á að vinna keppnina,“ segir Magnús Már Þorvarðarson arkitekt og einn þriggja eigenda SEN & SON í samtali við Morgunblaðið.

Nafnið dregið af eftirnöfnum

Meðeigendur hans og samstarfsmenn eru Daniel Axelsen byggingafræðingur og Hans Orri Kristjánsson arkitekt. Nafn stofunnar er dregið af eftirnöfnum eigendanna – SEN frá Danmörku og SON frá Íslandi.

„Krossmýrartorg er sambland af skrifstofuhúsnæði framtíðarinnar og menningarhúsnæði,“ útskýrir Magnús en torgið mun jafnframt þjóna sem miðstöð fyrir borgarlínuna.

Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri sagði þegar verðlaunatillagan var kynnt að SEN & SON væru fulltrúar nýrrar kynslóðar íslenskra arkitekta.

„Þá fylltist maður stolti og dagurinn varð ögn betri fyrir vikið,“ segir Magnús og brosir.

Menntaðir í Danmörku

Þremenningarnir eru allir menntaðir í Danmörku auk þess sem Daniel hefur lokið MSc-námi í sjálfbærum orkuvísindum frá Háskólanum í Reykjavík. Þeir Magnús og Hans höfðu sjálfbærni einnig í fókus í sínu námi auk þess sem þeir hafa innleitt gervigreind í sífellt meira mæli í hönnunarfasa sína.

„Við notum gervigreind til að skoða gæði verkefna út frá t.d. veðurlagi, vindi, sólarljósi og dagsljósi. Í raun skilum við ekki af okkur verkefni nema komin sé jákvæð endurgjöf frá forritinu.“

Mun gervigreindin á endanum geta leyst arkitekta af hólmi?

„Nei, ég held að þú þurfir alltaf aðkomu mannsheilans. Ég held að gervigreindin muni ekki taka yfir, en hún mun klárlega koma að góðum notum í framtíðinni, jafnt í okkar fagi sem öðrum.“

Aðspurður segir Magnús að tæknin spari ekki endilega tíma eða peninga en sé þeim mikilvæg í að auka virði og gæði þjónustunnar fyrir viðskiptavininn.

„Þetta gerir okkur kleift að skila betri vöru til kúnnans,“ segir hann.

Dagsljósið mikilvægt

Magnús nefnir dagsljósið sérstaklega í samhengi við það hvernig gervigreindin hjálpar. „Dagsljós hefur t.d. gríðarlega mikil áhrif í skrifstofuhúsnæði. Ef dagsljósskilyrði eru góð skilar það sér í færri veikindadögum starfsfólks sem og mun heilbrigðara vinnuumhverfi.“

SEN & SON var stofnuð haustið 2022 og hefur vaxið hratt síðan þá. Nú er svo komið að stofan þarf að ráða nýja starfsmenn til að anna verkefnum á teikniborðinu.

„Við erum reyndir hönnuðir og ætlum okkur stóra hluti á markaðnum,“ segir Magnús.

Spurður um stöðuna á markaðnum segir Magnús að mikið sé af flottum arkitektastofum á landinu.

„Maður finnur svo sem ekki fyrir því að það sé neitt frost. Það er meira að segja þannig að það er frekar erfitt að finna starfsfólk. Verkefnið á Borgarhöfðanum fer væntanlega af stað á næstu misserum. Svo erum við með tæplega eitt hundrað íbúðir í vinnslu, á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem við komum sterkir inn í hönnun á skrifstofuhúsnæði og sjóböðum. Þannig að það er ýmislegt í gangi.“

Magnús segir að stofan vilji gera sig enn meira gildandi á íbúðamarkaði.

„Við erum tilbúnir þegar eftirspurn eykst frekar og þróun nýrra hverfa fer vaxandi,“ segir Magnús að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK