Vakning um virði stæða

Katrín segir markmiðið vera að veita góða þjónustu til bæði …
Katrín segir markmiðið vera að veita góða þjónustu til bæði eigenda bílastæðanna og einnig til notenda. Kristinn Magnússon

Katrín B. Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri bílastæðafyrirtækisins Green Parking sem er að fullu í eigu Öryggismiðstöðvarinnar, segir mýmörg tækifæri liggja í bílastæðaþjónustu hér á landi.

Green Parking sérhæfir sig í nútímalegum bílastæðalausnum þar sem lögð er áhersla á sjálfvirkar greiðslulausnir í hugbúnaði og rekstri bílastæðakerfa fyrir bílastæði, bílakjallara og bílahús.

Auk fyrrnefndra verkefna er eitt af markmiðum Green Parking að sögn Katrínar að sinna hvers konar viðbótarþjónustu sem tengist rekstri stæðanna. Þar liggi beinast við að nefna öryggisvörslu og eftirlit t.d. í bílakjöllurum. Einnig að sjá um stæði fyrir deilibíla og halda utan um hjólageymslur og geymslubox, þrif og snjómokstur.

Allt á einni hendi

Hún segir að á Norðurlöndunum séu þau fyrirtæki orðin stærst í rekstri bílastæða sem boðið geta upp á þjónustu sem þessa og þar sem allur rekstur er á einni hendi.

„Green Parking með fulltingi eiganda síns, Öryggismiðstöðvarinnar, er eitt af þeim fyrirtækjum sem uppfylla öll skilyrði til að geta orðið eitt af þeim stærstu á markaðnum,“ fullyrðir Katrín.

Fyrsta verkefni fyrirtækisins hefur gengið vel að sögn Katrínar, rekstur á öllum bílastæðum Landspítalans, 1.200 að tölu.

„Nýjasti samningur okkar er um umsjón og rekstur bílastæðahúss við Hótel Reykjavík Grand sem hefst núna í vor,“ upplýsir Katrín.

Hún segir að markmið viðskiptavina, þ.e. fasteigna- og lóðareigenda, séu mismunandi. Flestir vilji þó verja bílastæði sín og tryggja að þau séu til reiðu fyrir viðskiptavini.

„Það er hluti af sjálfbærni að hámarka nýtingu bílastæða og stýra henni. Bílastæði eru takmörkuð auðlind og þeim fer fækkandi. Samgönguhættir eru að breytast og Green Parking mun aðlaga sína starfsemi í samræmi við þróun bílaflotans á næstu misserum,“ útskýrir Katrín.

Hún segir að mikil vakning sé að eiga sér stað í þjóðfélaginu um virði bílastæða.

„Hingað til hefur allur kostnaður við eignarhald og rekstur verið hjá eigendum eða leigjendum stæðanna. Nú vilja menn breyta því og dreifa kostnaði að hluta yfir á notendur.“

Katrín segir líkur á að gjaldtaka hefjist á bílastæðum í verslunarmiðstöðvum eins og víðast sé orðið í nágrannalöndum Íslands.

„Þar hafa notendur vanist því að greiða fyrir notkun flestallra bílastæða. Sú þróun mun berast hingað til lands líka fyrr en síðar.“

Fellur vel að rekstri

Hin nánu tengsl Green Parking við Öryggismiðstöðina þýða að tæknimenn og aðrir þjónustuaðilar móðurfélagsins geta komið í útkall með stuttum fyrirvara. Katrín segir að bílastæðaþjónustan falli vel að rekstri Öryggismiðstöðvarinnar sem býr yfir víðtækri lausna- og tækniþekkingu.

Aðspurð segir Katrín að lokum að auk Hótel Reykjavík Grand séu fleiri ný verkefni að fara af stað á næstu vikum og mánuðum.

„Þetta eru verkefni bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK