Teymin safnað um milljarði króna

Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Hringiðu hjá KLAK – Icelandic Startups.
Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Hringiðu hjá KLAK – Icelandic Startups.

Nýsköpunarhraðallinn Hringiða verður haldinn í fjórða sinn í ár, en þó með breyttu sniði. Í ár verður fyrirtækjum sem eru skammt á veg komin eða á hugmyndastigi boðið að taka þátt. Hringiða er viðskiptahraðall sem hefur það markmið að styðja við nýsköpunarfyrirtæki sem leggja áherslu á umhverfismál.

Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Hringiðu hjá KLAK – Icelandic Startups, segir í samtali við Morgunblaðið að ástæðan fyrir því að nú standi fyrirtækjum á hugmyndastigi til boða að taka þátt sé að mikil vöntun sé á fyrirtækjum sem leggja áherslu á umhverfismál.

„Þátttaka í Hringiðu hefur hingað til aðeins staðið lengra komnum fyrirtækjum til boða en í ár ákváðum við að breyta til þannig að annað hvert ár bjóðum við lengra komnum fyrirtækjum að taka þátt og annað hvert ár fyrirtækjum sem eru styttra á veg komin,“ segir Jenna Björk.

Margir bakhjarlar

Þátttaka í Hringiðu er fyrirtækjum að kostnaðarlausu en fjölmargir bakhjarlar standa á bak við hraðalinn, þar á meðal umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Orkuklasinn, Evris, Sjávarklasinn, Grænvangur, Hugverkastofa, F6S og Hringrásarklasinn.

Prógrammið stendur yfir í 6 vikur og allt að 10 teymi verða valin til þátttöku. Frumkvöðlar sem komast inn í hraðalinn fá tækifæri til þess að móta sína hugmynd með aðstoð sérfræðinga og frumkvöðla úr íslensku atvinnulífi, styrkja tengslanetið, fá skýra sýn á næstu skref og verkfærin til að komast þangað.

Jenna Björk segir að fjölmörg fyrirtæki sem tekið hafi þátt í hraðlinum séu enn starfandi í dag og þau þekktustu eru Snerpa Power, Side Wind, Álvit og E1.

„Við höfum tekið saman tölur og teymi Hringiðu hafa safnað hátt í milljarði króna frá styrktaraðilum og fjárfestum. Fyrirtækin sem hafa tekið þátt hafa einnig verið ánægð með fyrirkomulagið sem samanstendur af leiðsögn frá reynslumiklu fólki á sviðinu. Við erum með mentorakerfi sem er byggt á samstarfi frá MIT og undirbúum fyrirtækin við að þróa hugmyndina sína og kynna hana. Við erum í raun að leita að næstu umhverfisstjörnu,“ segir Jenna Björk. Mentora fyrirkomulagið byggir á hugmyndafræði MIT Venture Mentoring Service, sem hafa þróað fyrirkomulag í yfir tvo áratugi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK