„Lendingin virðist ætla að verða hröð“

Fjallað er um hraða lend­ingu ís­lenska hag­kerf­is­ins í greininni.
Fjallað er um hraða lend­ingu ís­lenska hag­kerf­is­ins í greininni. Ljósmynd/Colourbox

Nýlegir hagvísar benda til áframhaldandi samdráttar í einkaneyslu og raunar virðist hagkerfið almennt halda áfram að kólna allhratt eftir þensluskeiðið 2021-2022.

„Þar sem fjárhagur fyrirtækja og heimila er almennt traustur og atvinnuástand enn býsna gott er þó ekki hægt að tala um harða lendingu. Fremur má segja að lendingin virðist ætla að verða hröð en áfallalítil.“

Þetta kemur fram í grein á vef Íslandsbanka sem Jón Bjarki Bents­son, aðalhagfræðingur bankans, skrifar, en greinin ber yfirskriftina Hröð lend­ing ís­lenska hag­kerf­is­ins.

Hagvöxturinn sá hægasti í tæp þrjú ár

Jón bendir á, að mikill viðsnúningur hafi orðið í íslensku hagkerfi frá þenslu til aðlögunar á síðasta ári. Hagvöxtur á lokafjórðungi ársins hafi verið sá hægasti í tæp 3 ár og snarpur samdráttur í innflutningi sé helsta ástæða þess að ekki mældist samdráttur á fjórðungnum.

Hann segir að hagvöxtur á lokafjórðungi síðasta árs hafi verið 0,6% samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar.

„Er það minnsti hagvöxtur frá því hagkerfið fór á annað borð að rétta úr kútnum á vordögum árið 2021. Samdráttur varð í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi þjónustu milli ára og í raun var það að mestu leyti enn krappari samdrætti í innflutningi að þakka að vöxtur mældist á annað borð auk þess sem hóflegur vöxtur mældist í vöruútflutningi og samneyslu.“

Jón Bjarki Bentsson.
Jón Bjarki Bentsson. mbl.is/Hallur Már

Viðsnúningur eftir myndarlegan vöxt

Í greininni fer Jón um víðan völl og fjallar meðal annars um einkaneysluna sem sé einn stærsti undirliður þjóðhagsreikninga. Hann bendir á að það hafi orðið viðsnúningur í henni innan síðasta árs eftir myndarlegan vöxt árin á undan.

„Þannig óx einkaneyslan um tæp 5% á upphafsfjórðungi síðasta árs. Á þriðja fjórðungi hafði einkaneysluvöxturinn hins vegar snúist í samdrátt og enn bætti í samdráttinn á lokafjórðungi ársins þegar hann mældist ríflega 2%. Á heildina litið óx einkaneysla um hálfa prósentu í fyrra. Að faraldursárinu 2020 slepptu hefur einkaneysla ekki vaxið hægar frá árinu 2010.“

Spá tæplega 2% hagvexti í ár

Í lok greinarinnar segir Jón að horfur séu á að hagkerfið taki að sækja hægt og bítandi í sig veðrið á ný síðar á árinu.

„Alls spáum við tæplega 2% hagvexti í ár. Næstu tvö ár eigum við svo von á að nokkuð bæti í vöxtinn á ný þar sem hraðari aukning innlendrar eftirspurnar vegur upp hægari útflutningsvöxt og gott betur. Eins og títt er um slíkar spár bendir ekkert sérstaklega til þess um þessar mundir að verulegir umhleypingar séu framundan í hagkerfinu en reynsla síðustu ára hefur auðvitað kennt okkur að óvæntir atburðir hér sem erlendis geta heldur betur sett strik í þann reikning. Í öllu falli eru góðu heilli helstu stoðir hagkerfisins almennt sterkar og getan til að þola bæði góða tíma og slæma meiri fyrir vikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK