Óðinn nýr framkvæmdastjóri

Óðinn Árnason verður framkvæmdastjóri félagsins.
Óðinn Árnason verður framkvæmdastjóri félagsins. Ljósmynd/aðsend

Fasteignafélag Festi mun hér eftir ganga undir nafninu Yrkir. Félagið sérhæfir sig í útleigu atvinnuhúsnæðis til félaga í verslunarrekstri og eru fasteignir að mestu leyti í útleigu til félaga innan samstæðunnar. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Festi. Þar kemur jafnframt fram að fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Óðinn Árnason verði framkvæmdastjóri félagsins. Óðinn var ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra Festi fasteigna sumarið 2023. 

Umsýsla fasteigna sem tilheyra Festi

„Nafnabreytingunni er meðal annars ætlað að draga skýrar fram hlutverk og tækifæri fasteignafélagsins sem sjálfstæðrar rekstrareiningar en auk eigin fasteigna hefur Yrkir frá áramótum tekið við rekstri og umsýslu annarra fasteigna innan samstæðunnar. Breytingunni mun fylgja meiri áhersla á upplýsingagjöf um fasteignarekstur samstæðunnar sem mun endurspeglast í uppgjörum Festi frá og með fyrsta ársfjórðungi 2024.

Hlutverk Yrkis felst einna helst í því að annast rekstur og umsýslu fasteigna sem tilheyra samstæðu Festi, ásamt því að þróa bæði eignir og lóðir með það fyrir augum að auka verðmæti þeirra og arðsemi,“ segir m.a. í tilkynningu. 

Bókfært virði upp á 33 milljarða

Bókfært virði fasteigna og lóða samstæðunnar nam um 33 milljörðum króna í árslok 2023 og nemur stærð safnsins samtals um 93 þúsund fermetrum sem dreifist um allt land.

„Með því að draga fram þessa lykilstoð gefst okkur tækifæri til að veita skýrari og betri upplýsingagjöf um eignasafn okkar og verður fasteignareksturinn sýndur hér eftir sem nýr starfsþáttur í upplýsingagjöf til markaðarins,“ er haft eftir Ástu S. Fjelsted forstjóra Festi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK