Ölgerðin fékk Áruna fyrir Collab

Collab tekur forystuna var valin árangursríkasta auglýsingaherferð 2023.
Collab tekur forystuna var valin árangursríkasta auglýsingaherferð 2023.

Auglýsingaherferð Ölgerðarinnar, Collab tekur forystuna, fékk í dag Áruna, verðlaun fyrir árangursríkustu auglýsingaherferð síðasta árs á ÍMARK deginum sem fer nú fram í 38. sinn. 

Hönnuður er auglýsingastofan ENNEMM.

Óli Rúnar Jónsson framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar annar frá hægri ásamt …
Óli Rúnar Jónsson framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar annar frá hægri ásamt fulltrúum auglýsingastofunnar ENNEMM. Eggert Jóhannesson

Í tilkynningu frá ÍMARK segir að aldrei áður hafi borist jafn margar innsendingar í flokkinn Árangursríkasta markaðsherferðin. „Það var áberandi hversu faglegar og vandaðar innsetningar voru í ár sem gerði dómnefnd erfitt fyrir að gera upp á milli og stóð mjótt á munum,"  segir í tilkynningunni. 

Augljós árangur

Einnig segir að allar innsendingar hafi átt það sameiginlegt að sýna fram á augljósan árangur. „Í mati sínu leitaðist dómnefnd eftir sannanlegum árangri með áreiðanlegum gögnum. Einnig var leitast eftir beinni sönnun á árangri og skýrri tengingu við þá herferð sem innsending náði yfir. Dómnefnd þótti eftirtektarvert hversu faglega er staðið að markaðsmálum og áttu innsendingar það sameiginlegt að góð nýting miðla, hugmyndaauðgi og heildstæðar hugmyndir skila sér í mælanlegum árangri."

Einstaklega vel heppnuð

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að árangursríkasta markaðsherferðin 2023 hafi verið  einstaklega vel heppnuð og hafi náð sannanlegum árangri. Hún hafi verið vel framkvæmd og árangurinn rökstuddur með sterkum gögnum.

„Herferðin var vel útfærð og er skýrt að árangurinn er ekki byggður á tilviljunum heldur vel útfærðum og stefnumiðuðum aðgerðum. Marktækir mælikvarðar voru settir fram sem byggðu á skýrum og sannfærandi markmiðum og drógu fram góða heildarmynd af árangri herferðar sem vógu þungt í mati dómnefndar ásamt góðum samanburði og skýrum gögn því til sönnunar. Herferðin skilaði sér í stórkostlegum árangri í krefjandi samkeppnisumhverfi sem samanstendur af mörgum keppinautum, þar á meðal sterkum alþjóðlegum vörumerkjum.“

Auglýsingastofa ársins og vörumerki ársins

Verðlaun fyrir auglýsingastofu ársins og vörumerki ársins voru einnig veitt fyrr í dag.

Verðlaunin fyrir auglýsingastofu ársins eru veitt fyrir framúrskarandi þjónustu, hugmyndaauðgi, fagleg vinnubrögð og áherslu á árangur viðskiptavina á nýliðnu ári.

Verðlaun fyrir vörumerki ársins eru veitt fyrir framúrskarandi markaðssetningu.

Vörumerki ársins: Krónan

Krónan var valið vörumerki ársins.
Krónan var valið vörumerki ársins. Eggert Jóhannesson

Auglýsingastofa ársins: Pipar/ TBWA

2 sæti Hvíta Húsið
3 sæti Brandenburg
4 sæti EnnEmm

Agga hönnunarstjóri Pipars/TBWA tekur við verðlaunum fyrir Auglýsingastofu ársins.
Agga hönnunarstjóri Pipars/TBWA tekur við verðlaunum fyrir Auglýsingastofu ársins. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK