Fyrsta vaxtahækkunin í 17 ár

Kazuo Ueda, seðlabankastjóri Japans, á blaðamannafundi í Tókýó í dag.
Kazuo Ueda, seðlabankastjóri Japans, á blaðamannafundi í Tókýó í dag. AFP

Tímamót urðu í japönsku efnahagslífi í morgun þegar seðlabanki Japans tilkynnti um fyrstu stýrivaxtahækkun bankans í 17 ár. 

Verða stýrivextir nú á bilinu 0-0,1%. Þessi ákvörðun er fyrsta skrefið í átt til þess að vinda ofan af stefnu sem mörkuð var til að berjast gegn áratuga langri kyrrstöðu og verðhjöðnun í efnahagslífinu. 

Gengi japanska jensins lækkaði í morgun gagnvart Bandaríkjadal eftir að þessi ákvörðun var kynnt.

Seðlabankinn hækkaði síðast stýrivexti árið 2007 en baráttan gegn verðhjöðnun hófst fyrir alvöru árið 2013 þegar Shinzo Abe var forsætisráðherra. Hann markaði þá stefnu sem einkenndist af auknum ríkisútgjöldum og minnkandi aðhaldi seðlabankans. Bankinn varði háum fjárhæðum til að kaupa skuldabréf og aðrar eignir til að auka fjármagn í hagkerfinu. Markmiðið var koma verðbólgu í 2% í þeirri von að það myndi glæða hagvöxt.

Stýrivextir voru -0,1% frá árinu 2016 sem þýddi í raun að bankarnir þurftu að greiða fyrir að geyma fé sitt í seðlabankanum. Vonast var til að bankarnir myndu þess í stað auka útlán og þannig ýta undir aukin umsvif í hagkerfinu. 

Þessi stefna hefur valdið miklum þrýstingi á japanska jenið en sumir hagfræðingar segja, að hún hafi borið árangur og komið í veg fyrir frekari verðhjöðnun. En einnig hafi hún leitt til minnkandi aðhalds og þess að fyrirtækjum, sem komin voru á vonarvöl, var haldið í rekstri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK