Skoði samvinnu af meiri alvöru

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri Fjártækniklasans.
Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri Fjártækniklasans. mbl.is/Eyþór

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri Fjártækniklasans segir mikilvægt fyrir hefðbundna banka að skoða af meiri alvöru aukna samvinnu við fjártæknifyrirtæki. Að öðrum kosti eigi þeir á hættu að sitja eftir í þróuninni.

Hann segir í samtali við Morgunblaðið að bálkakeðjutæknin, sem mörg ný forrit eru byggð á, sé orðin það fullkomin að raunverulegar áþreifanlegar lausnir séu að verða til utan hins hefðbundna bankaheims.

Þær muni höfða sterkt til yngri kynslóða sem séu opnar fyrir notkun á fjölbreyttum nýtískulegum lausnum í snjallsímum.

Unga fólkið muni ekki endilega eiga bankareikninga í hefðbundnum bönkum eins og foreldrar þeirra gerðu.

Monerium fram hjá bönkum

Sem dæmi nefnir Gunnlaugur íslenska rafeyrisfyrirtækið Monerium. Eins og ViðskiptaMogginn greindi frá síðasta sumar varð fyrirtækið þá það fyrsta í heiminum til að gera viðskiptavinum kleift, í samvinnu við Gnosis Pay, að fá venjulegt VISA-kort sem inniheldur rafmyntir til að borga fyrir hinar ýmsu vörur og þjónustu, eins og kaffi og bensín. Þannig fari fyrirtækið fram hjá hefðbundnum bönkum.

Eins og Gunnlaugur útskýrir er bálkakeðjutæknin orðin 15 ára gömul og hefur þróast mikið í áranna rás.

„Það er mjög mikið að gerast í þessum geira. Það er með þennan bransa eins og aðra að menn hafa lengi talað um að eitthvað sé að fara að gerast en lengst af hefur verið erfitt að spá fyrir um hvenær hlutirnir springa út.

Gott dæmi er gervigreindarbyltingin. Menn voru byrjaðir að spá því fyrir mörgum áratugum að gervigreind yrði mjög áhrifamikil. En það var fyrst á síðasta ári sem almenningur sá með eigin augum hvers hún er megnug í raun.“

Bylta fjármálaþjónustu

Gunnlaugur segir að lausnir byggðar á bálkakeðjunni komi til með að bylta fjármálaþjónustu. Engum blöðum sé um það að fletta.

„Það má líkja bálkakeðjunni við internetið. Þetta er opið vistkerfi þar sem hægt er að búa til ýmiss konar lausnir án þess að fá samþykki einhverra sem stjórna aðgengi að keðjunni.

Það er mikið talað fyrir samstarfi fjártæknifyrirtækja og banka en í hvert skipti sem fjártæknifyrirtækið kemur með nýja lausn og ræðir hana við bankann þá er það bankinn sem ræður ferðinni og ákveður hverjum hann vinnur með. Hann ræður þar af leiðandi hvort viðkomandi lausn kemst á legg.“

Meira í Morgunblaðinu í gær, fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK