Ársreikningi Isavia synjað

Guðmundur Björgvin Helgason er ekki löggiltur endurskoðandi þrátt fyrir að …
Guðmundur Björgvin Helgason er ekki löggiltur endurskoðandi þrátt fyrir að vera titlaður ríkisendurskoðandi.

Ársreikningaskrá hefur synjað ársreikningi Isavia vegna þess að hann skortir áritun löggilts endurskoðanda. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins en búist er við að ársreikningur Íslandspósts hljóti sömu örlög.

Guðmund­ur Björg­vin Helga­son rík­is­end­ur­skoðandi áritaði árs­reikn­inga hinna opinberu hlutafélaga án árit­un­ar lög­gilts end­ur­skoðanda. Árs­reikn­ing­ana áritaði hann með end­ur­skoðun­ar­árit­un þar sem fram kem­ur að end­ur­skoðað hafi verið í sam­ræmi við alþjóðlega end­ur­skoðun­arstaðla.

Samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun getur hinsvegar aðeins löggiltur endurskoðandi endurskoðað ársreikninga og það er Guðmundur Björgvin ekki, enda er hann stjórnmálafræðingur að mennt.

FLE ósátt og Endurskoðendaráð með málið til athugunar

Undirritun ríkisendurskoðanda fór öfugt ofan í Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) sem sendu félagsmönnum sínum bréf í síðasta mánuði í kjölfar þess að ríkisendurskoðandi áritað ársreikningana með þeim hætti sem að ofan greinir.

Endurskoðendaráð tók málið jafnframt til skoðunar, en hlutverk ráðsins er meðal annars að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga um endurskoðendur og endurskoðun.

Munu Isavia og Íslandspóstur þurfa að samþykkja nýja ársreikninga með réttri áritun. Væntanlega þarf að boða til aukaaðalfunda hjá félögunum vegna þessa.

Verklagi áður verið breytt

Mál þetta er ekki fordæmalaust. Árið 2019 varð Skúla Eggerti Þórðarsyni, þáverandi ríkisendurskoðanda, það á að undirrita ársreikning Íslandspósts þrátt fyrir að hafa ekki löggildingu sem endurskoðandi.

Í kjölfarið var verklagsreglum innan stofnunarinnar breytt þannig að ríkisendurskoðandi áriti aðeins eftirlitsþáttinn sem yfirmaður stofnunarinnar en fagendurskoðendur áriti reikningsskilin, að því er fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið á sínum tíma. Eitthvað virðist hið breytta verklag hafa skolast til síðan handvömm Skúla Eggerts átti sér stað.

Í svari við fyrirspurn blaðsins í síðasta mánuði sagði ríkisendurskoðandi að áritun hans hafi verið til staðfestingar á vinnu endurskoðenda sem starfa á vegum embættisins. Komi til einhverra athugasemda á öðrum vettvangi yrði brugðist við því með viðeigandi hætti. Morgunblaðið hefur sent ríkisendurskoðanda fyrirspurn vegna stöðunnar sem upp er komin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK