Endurvekja viðskiptahraðalinn StartupTourism

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri …
Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Ferðaklasans. Ljósmynd/Þóra Ólafsdóttir

KLAK – Icelandic Startups og Ferðaklasinn hafa ákveðið að endurvekja viðskiptahraðalinn StartupTourism í nýrri mynd.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Er viðskiptahraðlinum ætlað að vera hvatning til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs í ferðaþjónustu og til að styrkja stoðir nýrra fyrirtækja.

Frábær árangur af fyrri hröðlum

StartupTourism hraðallinn var keyrður fjórum sinnum á árunum 2016-2019 með frábærum árangri en 15 af 39 fyrirtækjum sem tóku þátt í hraðlinum eru enn starfandi í dag, segir í tilkynningunni.

Þörfin fyrir slíkan hraðal á sviði ferðamála hafi aldrei verið meiri enda ferðaþjónustan nú einn mikilvægasti hlekkur íslensks hagkerfis.

„Það hefur aldrei verið mikilvægara að nota nýsköpun til að leysa áskoranir sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir. Stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi er sífellt að verða öflugra og það er mikilvægt að nýta það fyrir ferðaþjónustuna líka og endurvekja þennan flotta hraðal sem ferðaþjónustan átti,“ er haft eftir Ástu Sóllilju Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Klak – Icelandic Startups, í tilkynningunni.

Leggja áherslu á sjálfbærni og landsbyggðina

„Það er ánægjulegt að margir aðilar hafa lýst yfir áhuga á aðkomu að verkefninu sem bakhjarlar og við stefnum á að ljúka fjármögnun á verkefninu á næstu vikum,“ er haft eftir Ástu.

Hún segir að StartupTourism muni leggja ríka áherslu á sjálfbærni og umhverfisvernd. Jafnframt á þátttöku sprotafyrirtækja af landsbyggðinni og verður bæði uppsetning hraðalsins og kynningarherferð hans sniðin til að mæta þörfum þeirra.  

Sprotafyrirtækin sem fá sæti í StartupTourism hraðlinum munu njóta leiðsagnar reyndra frumkvöðla, fjárfesta og ýmissa lykilaðila á sviði ferðaþjónustu auk annarra sérfræðinga, jafnframt mentora KLAK VMS og stjórnenda þeim að kostnaðarlausu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK