Hagnaður Kynnisferða tvöfaldaðist

Samstæðan samanstendur af fjölbreyttri ferðaþjónustu.
Samstæðan samanstendur af fjölbreyttri ferðaþjónustu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kynnisferðir hf. högnuðust um rúmlega 1,3 milljarða króna á síðasta ári og tvöfaldaðist hagnaðurinn á milli ára.

Tekjur félagsins námu 14,5 milljörðum króna og jukust um 30% milli ára og var EBITDA félagsins 3,1 milljarður króna og jókst um 25%.

„Við erum afar stolt af þeim árangri sem náðist í rekstri félagsins á síðasta ári þrátt fyrir hátt vaxtastig og aðrar krefjandi ytri aðstæður. Þetta var ár samþættingar eftir sameiningu Kynnisferða og Eldeyjar þar sem allir starfsmenn lögðust á eitt. Okkar megináhersla er þjónustuupplifun gesta okkar,“ segir Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða, í tilkynningu.

„Þrátt fyrir áframhaldandi krefjandi aðstæður með yfirvofandi jarðhræringum þá lítum við björtum augum til framtíðar og erum viss um að ferðamenn munu áfram vilja heimsækja og njóta okkar frábæra lands.“

Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða.
Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða. Ljósmynd/Aðsend

Eignir 16 milljarðar króna

Eignir samstæðunnar í árslok voru 16 milljarðar króna og eigið fé nam rúmum 7,2 milljörðum og nam því eiginfjárhlutfall félagsins 45%.

Samstæðan samanstendur af fjölbreyttri ferðaþjónustu undir vörumerkinu Icelandia. Einnig rekur félagið einn stærsta og nýjasta hópbifreiðaflota landsins og býður upp á dagsferðir, sérferðir ýmiskonar og starfrækir Flugrútuna. Bílaleiga Kynnisferða hefur sérleyfi fyrir Enterprise Rent-A-Car á Íslandi og er með hátt í 1.000 bíla í rekstri yfir sumartímann. Einnig gerir félagið út rúmlega 30% af leiðarkerfi Strætó BS. á höfuðborgarsvæðinu og sinnir gámaflutningum og eldsneytisflutningum undir vörumerkinu Garðaklettur, að því er segir í tilkynningunni.

„Kynnisferðir hafa markað sér skýra stefnu að sjálfbærum rekstri og hefur félagið m.a. samið við Vaxa Technologies um kolefnisjöfnun dagsferða og Flugrútunnar auk þess sem innleiðing orkuskipta er hafin af fullum krafti í flota félagsins. Þá hefur félagið nýlega unnið útboð Strætó BS. til næstu 8 ára þar sem orkuskipti munu fara fram á öllum flota félagsins á samningstímanum,” segir jafnframt í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK