c

Pistlar:

28. mars 2018 kl. 10:55

Ketill Sigurjónsson (hreyfiafl.blog.is)

Sæstrengsárið 2025?

Sæstrengsverkefnið virðist á miklu skriði. Og það þrátt fyrir yfirvofandi Brexit og óvissuna sem það ástand skapar um orkustefnu Bretlands. Nú kynnir breska fyrirtækið Atlantic SuperConnection, dótturfyrirtæki Disruptive Capital Finance, að stefnt sé að því að 1.200 MW raforkustrengur milli Bretlands og Íslands verði kominn í notkun jafnvel strax árið 2025. Og að fyrirtækið ætli sér að reisa sérstaka kapalverksmiðju vegna verkefnisins á Bretlandi, sem á að vera tilbúin strax 2020. Gangi þessar áætlanir Atlantic SuperConnection eftir, mun eftirspurnin eftir íslenskri raforku væntanlega aukast um mörg þúsund GWst. Og það sem sagt kannski strax árið 2025. Um þessar áætlanir Atlantic SuperConnection er fjallað í þessari grein.

Þarf enga nýja virkjun vegna sæstrengs?

Núverandi raforkuframleiðsla á Íslandi er um 19.000 GWst á ári. Það er fróðlegt að skoða hvernig útvega á þá orku sem sæstrengur kallar á. Eins og rakið er í greininni er raforkuþörf sæstrengs milli Íslands og Bretlands áætluð u.þ.b. 5.000-6.000 GWst. Það er því athyglisvert að Atlantic SuperConnection hefur kynnt að sæstrengurinn kalli á fáar og jafnvel engar nýjar virkjanir á Íslandi. Þetta má lesa á vef fyrirtækisins: Ideally, few or no new power plants will need to be built in Iceland […] for the SuperConnection.

Landsvirkjun segir miklar virkjanaframkvæmdir þurfa vegna sæstrengs

Sú sýn Atlantic SuperCennection að lítil sem engin þörf verði á nýjum virkjunum á Íslandi vegna sæstrengs er í andstöðu við þá sýn sem Landsvirkjun hefur kynnt um strenginn. Stjórnendur Landsvirkjunar hafa í ýmsum kynningum og viðtölum sagt slíkan streng kalla á aukið framboð sem nemi um 5.000 GWst. Og að stærstur hlutinn af þeirri raforku þurfi að koma frá nýjum virkjunum. Og nú hefur Landsvirkjun hækkað tölu sína um raforkuþörfina.

Í dag segir á vef Landsvirkjunar að strengurinn myndi flytja út um 5.700 GWst og kalla á raforku sem næmi um 5.800 GWst. Þar með hefur Landsvirkjun hækkað tölu sína um raforkuþörf vegna sæstrengs um 800 GWst. Sem er t.a.m. rúmlega það sem Hvammsvirkjun myndi framleiða. Tekið skal fram að munurinn þarna upp á 100 GWst, þ.e. á milli 5.700 og 5.800 GWst, kemur til af því að Landsvirkjun álítur að um 100 GWst tapist við flutninginn til strengsins. Flutningstapið er sem sagt áætlað um 2%. Samkvæmt áætlunum Atlantic SuperConnection er svo orkutap í strengnum álitið verða nálægt 5%.

Auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi um 30%

Lengi vel var sviðsmynd Landsvirkjunar sú að um 2.000 GWst af allri raforkuþörf strengsins fengist með betri nýtingu núverandi kerfis og nýjum hverflum (aflaukningu) í núverandi vatnsaflsvirkjanir. Og að nýjar virkjanir myndu svo framleiða samtals um 3.000 GWst fyrir strenginn. Samtals gerir þetta 5.000 GWst í aukna orkuframleiðslu vegna strengsins.

Nú hefur Landsvirkjun hækkað þessar tölur og gerir nú ráð fyrir að nýjar virkjanir skili þarna samtals um 3.900 GWst og að aflaukning og bætt nýting núverandi kerfis skili um 1.900 GWst. Samtals eru þetta, eins og áður sagði, 5.800 GWst. Sem þýðir að tala Landsvirkjunar um raforkuþörf strengsins hefur hækkað um 800 GWst (úr 5.000 í 5.800 GWst) og tala fyrirtækisins um nýjar virkjanir hér hefur hækkað um sem nemur 900 GWst (úr 3.000 í 3.900 Gwst). Miðað við þetta þyrfti að auka raforkuframleiðslu á Íslandi um u.þ.b. 30%. Bara vegna strengsins.

Heildar raforkuþörf sæstrengs jafngildir átta Hvammsvirkjunum

Staðan er sem sagt þessi: Landsvirkjun hefur sagt að orkuþörf 1.000 MW sæstrengs sé um 5.000 GWst og segir núna að orkuþörfin yrði um 5.800 GWst (sem jafngildir framleiðslu um átta Hvammsvirkjana). Og fyrirtækið segir að nýjar virkjanir fyrir strenginn þurfi að skila um 3.900 GWst (sem jafngildir að reisa þyrfti milli fimm og sex Hvammsvirkjanir).

Á sama tíma segir Atlantic SuperConnection að lítið sem ekkert þurfi að virkja fyrir strenginn. Landsvirkjun miðar vel að merkja við nokkru minni kapal (1.000 MW) heldur en Atlantic SuperConnection gerir (1.200 MW). Sem gerir umrædda sviðsmynd Atlantic SuperConnection ennþá frábrugðnari þeirri sem Landsvirkjun hefur kynnt.

Við hljótum að sýna Landsvirkjun það traust að það sé í reynd svo að ef/ þegar sæstrengurinn yrði lagður, muni í reynd þurfa að auka raforkuframboð hér um 5.800 GWst. Til að unnt sé að uppfylla alla þessa orkuþörf fyrir kapalinn segir Landsvirkjun að hann kalli á miklar virkjanaframkvæmdir.

Hluti þessarar raforku á að koma með bættri nýtingu núverandi vatnsaflsvirkjana og nýrra hverfla í þær. Sú raforka er talin verða um 1.900 GWst. En miklu stærri hluti orkunnar á að koma frá nýjum virkjunum. Nýju virkjanirnar sem reisa þyrfti vegna sæstrengsins eiga að skila um 3.900 GWst. Það jafngildir því, eins og áður sagði, að hér þyrfti að reisa sem jafngildir milli fimm og sex Hvammsvirkjunum. Samsetning þessara virkjana er þó hugsuð með allt öðrum hætti.

3.900 GWst frá nýjum virkjunum

Samanlagt kæmu umræddar 3.900 GWst frá eftirfarandi tegundum af nýjum virkjunum (enn er stuðst við sviðsmynd Landsvirkjunar). Í fyrsta lagi yrðu reistar u.þ.b. 2-3 nýjar hefðbundnar vatnsafls- og/eða jarðvarmavirkjanir, sem Landsvirkjun áætlar að nemi um 200 MW (Landsvirkjun kallar þetta „miðlungsstórar eða minni“ virkjanir). Í öðru lagi yrðu byggðar ýmsar nýjar smærri vatnsaflsvirkjanir (í þessu sambandi talar Landsvirkjun um „bændavirkjanir“, en þetta eru ýmsir fremur litlir virkjanakostir í vatnsafli og enginn veit í reynd hvort þær verða í eigu bænda eða annnarra). Í þriðja lagi gerir Landsvirkjun ráð fyrir um 400 MW af vindafli. Sem jafngildir ca. 3-6 vindmyllugörðum. Og loks tilgreinir Landsvirkjun möguleikann á lághitavirkjunum. Með öllum þessum virkjunum samanlögðum á að vera unnt að útvega um 3.900 GWst.

1.900 GWst með betri nýtingu virkjana og nýjum hverflum

Þær 1.900 GWst sem upp á vantar fyrir kapalinn til Bretlands, að mati Landsvirkjunar, eiga að nást með því að nýta það sem Landsvirkjun nefnir „umframorka“. Þessari umframorku má skipta í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða rafmagn sem fæst með betri nýtingu núverandi vatnsaflskerfis. Sem felst í því að sæstrengur gefur kost á meiri sveigjanleika í að ná meiri framleiðslu út úr núverandi virkjunum. Algeng nýting vatnsaflsvirkjana hér á landi yfir árið er tæplega 66% (skv. upplýsingum Orkustofnunar). Með því að hleypa betur af miðlunarlónunum, um hverflana, mætti auka þessa nýtingu (og svo mætti nýta ódýra breska næturorku ef þörf er á að safna aftur í lónin). Fleira mætti hér nefna, svo sem nýtingu á á orku sem samið er um í stóriðjusamningum en fyrirtækin nota ekki alltaf.

Hinn hluti umframorkunnar felst einkum í því vatni sem nú rennur stundum á yfirfalli yfir stíflur vatnsaflsvirkjananna. Í þessu sambandi má minna á fossinn Hverfanda upp við Kárahnjúkastíflu. Þar fer stundum mikil orka til spillis. Eðlilega er nokkuð misjafnt frá ári til árs hversu mikið þetta yfirfallsvatn er; þetta er m.ö.o. ótrygg (sveiflukennd) orka en lakara að hún fari til spillis með því að streyma á yfirfalli. Það má reyndar segja að náin tengsl séu milli hinna tveggja ólíku hluta umframorkunnar, því allt er þetta orka í formi vatnsafls sem nú fer til spillis en mætti láta fara í gegnum hverfla (túrbínur).

Af hálfu Landsvirkjunar er í þessu sambandi lagt til að afl Fljótsdalsstöðvar (Kárahnjúkavirkjunar) verði aukið um 150 MW og afl í núverandi virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu verði aukið um samtals ca. 200 MW. Þannig má búa til mikið af raforku fyrir sæstreng. Þessi aflaukning á að verða samtals um 400 MW, sem þá yrði sem sagt bætt í núverandi virkjanir Landsvirkjunar. Þó svo þetta séu ekki nýjar virkjanir og þetta kalli ekki á nýjar stíflur eða ný miðlunarlón, þá yrðu þetta miklar framkvæmdir. En um leið hagkvæmar, vegna hins háa verðs sem vænta má af raforkusölu til Bretlands.

Sæstrengur myndi samtals kalla á næstum 6.000 GWst

Tölur Landsvirkjunar miðast við 1.000 MW kapal (sumstaðar talar Landsvirkjun um að kapallinn gæti verið 800-1.200 MW en þá er meðaltalið vel að merkja 1.000 MW). Áætlanir Atlantic SuperConnection um 1.200 MW kapal þýða að sá kapall sé um 20% afkastameiri og því mætti gera ráð fyrir að raforkuþörfin fyrir hann ætti að vera mun meiri en þær 5.800 GWst sem Landsvirkjun miðar við. Svo sem a.m.k. á bilinu 6.000-6.500 GWst. En hvort svo sem nákvæm tala raforkunnar sem á að fara frá Íslandi til Bretlands yrði 5.000 GWst eða 6.000 GWst eða 6.500 GWst, þá er augljóst að mjög mikla raforku þarf fyrir strenginn. Sú raforka jafngildir hátt í þriðjungi þess rafmagns sem nú er framleitt á Íslandi. Enda gerir Landsvirkjun ráð fyrir miklum virkjanaframkvæmdum vegna strengsins.

Stórfelldar framkvæmdir við virkjanir og flutningskerfi

Það er áhugavert ef okkur Íslendingum býðst tækifæri til að stórbæta nýtingu virkjana hér og þar með auka arðsemi þeirrar fjárfestingar. Þetta er möguleiki sem sæstrengur til Bretlands kann að bjóða upp á. Um leið er augljóst að slíkur strengur kallar á geysilegar virkjanaframkvæmdir hér (þar að auki þyrfti að styrkja flutningskerfi Landsnets mjög). Yfirlýsingar Atlantic SuperConnection um að jafnvel þurfi enga nýja virkjun á Íslandi vegna sæstrengs eru því ekki traustvekjandi.  

Til skemmri tíma hafa forsendur sæstrengs veikst

Það er skoðun greinarhöfundar að fjárhagslega gæti orðið mjög skynsamlegt fyrir Íslendinga að selja raforku sem útflutningsvöru. En hversu raunhæf er sú hugmynd í dag? Orkustefna Bretlands, sem byggst hefur á sameiginlegri orkustefnu Evrópusambandsríkjanna, er í nokkru uppnámi núna vegna fyrirhugaðs Brexit. Og svo hefur kostnaður við uppbyggingu vindorku í Bretlandi lækkað verulega. Hvort tveggja er líklegt til að hækka þröskulda vegna sæstrengsverkefnisins. Það eru ansið brattar áætlanir hjá fyrirtæki sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega, að láta sér detta í hug að unnt verði að útvega allan eða stóran hluta orkunnar í 1.200 MW sæstrengs milli Bretlands og Íslands strax árið 2025.

Til varnar Atlantic SuperConnection er þó rétt að vekja athygli á því að hugsanlega þarf ekki öll þessi raforka (5.000-6.000 GWst) að vera til taks um leið og strengurinn kæmist í gagnið. Kannski horfir Atlantic SuperConnection til þess að nóg sé að byrja með þær sveiflukenndu u.þ.b. 1.900 GWst sem unnt er að sækja í núverandi kerfi með hóflegri framkvæmdum. Um leið er fyrirtækið kannski að vinna með þá hugmynd að strengurinn verði eitthvað minni en opinberar upplýsingar gefa til kynna. En það er augljóst að a.m.k. til skemmri tíma litið eru forsendur sæstrengs veikari í dag en voru fyrir fáeinum árum. Hvað svo sem kann að gerast í framtíðinni.

Misræmi milli Landsvirkjunar og Atlantic SuperConnection

Það sem kannski er sérkennilegast er það misræmi eða munurinn á sviðsmyndum Landsvirkjunar annars vegar og Atlantic SuperConnection hins vegar. Í hnotskurn má segja að áætlun Landsvirkjunar sé skýrari. Og það er vandséð að sú sáralitla þörf á nýjum virkjunum, sem Atlantic SuperConnection hefur kynnt, gangi upp. Nema að annað hvort standi til að raforkan sem nú fer til Norðuráls fari í sæstrenginn, eða að búið sé að gjörbreyta viðskiptamódeli strengsins, t.d. á þann hátt að hann eigi að vera miklu meira fyrir innflutning en til stóð í fyrri áætlunum.

Hvað sem þessu líður, þá hlýtur að vera æskilegt að Landsvirkjun og Atlantic SuperConnection tali á líkari nótum. Það er skynsamlegt að leita leiða til að hámarka arðinn af íslensku orkulindunum, en umræðan ætti að vera skýrari. Meira samræmi mætti vera í þeim upplýsingum sem helstu hagsmunaaðilarnir kynna til að útskýra raforkuþörf og raforkuflutning vegna sæstrengs.

Og það er efni í svolítinn kjánahroll þegar maður les á vef Atlantic SuperConnection, að á Íslandi sé unnt fyrir fyrirtækið að nálgast svo til takmarkalausa uppsprettu hreinnar vatns- og jarðvarmaorku fyrir Bretland: Through a unique renewable energy partnership with Iceland, we can bring a near-limitless source of clean hydroelectric and geothermal power to the UK.

Þörf á meiri/betri upplýsingamiðlun

Greinarhöfundur mun á næstunni birta nákvæmari upplýsingar og skýra sviðsmynd um það hvernig unnt væri að uppfylla umrædda raforkuþörf sæstrengs. Og mun þar með taka að sér það hlutverk að veita almenningi upplýsingar sem aðrir ættu löngu að vera búnir að veita með skýrari hætti. Þar verður ekki aðeins litið til sæstrengsins, heldur líka tekið tillit til vaxtarins í innlendri raforkuþörf. Enda hlýtur sú aukna eftirspurn alltaf að vera eitt lykilatriðanna þegar horft er til þess hvernig íslenski orkumarkaðurinn mun þróast.

Ýmsir valkostir í boði og mikilvægt að horfa til umhverfismála

Svo er líka eðlilegt að skoða aðra valkosti en sæstreng. Og vega þetta allt og meta. Kannski væri skynsamlegast fyrir okkur Íslendinga að byrja á því að ná betri og meiri nýtingu úr núverandi vatnsaflskerfi fyrir okkur sjálf. Það mætti gera með því að virkja vind í hófi og nýta samspil vindmylla og stórra miðlunarlóna vatnsaflskerfisins. Þannig mætti með hagkvæmum hætti bæði mæta aukinni raforkuþörf hér innanlands og um leið gera stóran hluta núverandi vatnsaflsvirkjana eitthvað hagkvæmari.

Samhliða þessu myndi verða minni þörf t.d. á Hvammsvirkjun eða öðrum slíkum nýjum virkjunum sem valda stórfelldu, varanlegu og óafturkræfu raski á landslagi. Um leið myndu áætlanir um sæstreng kannski verða síður áhugaverðar eða a.m.k. ekki eins sterkur valkostur að svo stöddu. Þarna er unnt að fara ýmsar leiðir. Okkar er valið. En það eru valkostir af þessu tagi sem við þurfum að íhuga. Og það hljóta t.a.m. stjórnmálamenn og þá kannski einkum forráðamenn orku- og umhverfismála að gera, svo sem umhverfisráðherra og iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

------------

Mynd: Atlantic SuperConnection kynnir nú árið 2025 sem fyrsta rekstrarár sæstrengs milli Íslands og Bretlands:

Hreyfiafl-Atlantic-Superconnection_March-2018

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Hér birtast hugleiðingar um hin ýmsu málefni; einkum um orkumál. Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr á Íslandi (Zephyr Iceland), sem er dótturfyrirtæki norska Zephyr.
Meira